Íslenski boltinn

Forveri Ólafs í starfi tilkynnti honum um titilinn: „Engan veginn viss þegar það var flautað af“

Sindri Sverrisson skrifar
Það tók Ólaf smástund að ná áttum en svo fagnaði hann vel og lengi með lærisveinum sínum enda Breiðablik að vinna sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil í karlaflokki, og þann eina enn í dag.
Það tók Ólaf smástund að ná áttum en svo fagnaði hann vel og lengi með lærisveinum sínum enda Breiðablik að vinna sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil í karlaflokki, og þann eina enn í dag. MYND/STÖÐ 2 SPORT

„Þetta voru mjög erfiðar 90 mínútur,“ sagði þjálfarinn Ólafur Kristjánsson þegar hann rifjaði upp lokahnykkinn í Íslandsmeistaratitli Breiðabliks í fótbolta karla árið 2010, þeim fyrsta og eina í sögu liðsins.

Ólafur rifjaði Íslandsmeistaraárið upp með Gumma Ben í Sportinu í kvöld á Stöð 2 Sport. Þeir skoðuðu svipmyndir frá leik Blika við Stjörnuna í Garðabæ í lokaumferð Íslandsmótsins, en markalaust jafntefli dugði Blikum til að enda fyrir ofan FH á markatölu og tveimur stigum fyrir ofan ÍBV sem tapaði í Keflavík. Það leið smástund þar til að Ólafur leyfði sér að fagna titlinum og raunar var það forveri hans í starfi hjá Breiðabliki, Bjarni Jóhannsson sem þarna stýrði Stjörnunni, sem lét Ólaf vita að titillinn væri í höfn.

„Ég get sagt þér núna hvað fór á milli mín og Bjarna. Ég labba þarna eins og í einhverri leiðslu og það var ekki gleði að sjá á svip þessa þjálfara. Það var ekki vegna þess að það væri ekki gleði. Ég var bara ekki búinn að meðtaka þetta. Ég labbaði að fjórða dómaranum og einhverjum Stjörnumönnum, og svo segir Bjarni „til hamingju“, og ég svara „er þetta búið? Eru hinir leikirnir búnir?“ Hann staðfestir það og þá fer þetta svona að síast inn að þetta sé komið,“ sagði Ólafur.

„Ég var engan veginn viss þegar það var flautað af. Þetta var svakalega erfiður leikur, því maður var í þessari glímu um það hve miklu ætti að hætta til að fá sigurinn gegn því að maður gæti fengið mark í andlitið. Ég heyrði aðeins af því sem var að gerast í öðrum leikjum en þrátt fyrir það þá var maður ekki í rónni. Þetta minnti á Evrópuleik þar sem maður getur spilað upp á ákveðin úrslit. Þar sem 0-0 eru bara ágætis úrslit. Við höfðum unnið Stjörnuna 4-0 á heimavelli og Stjarnan ætlaði ekkert að fara að láta Breiðablik fara að fagna Íslandsmeistaratitli á Stjörnuvellinum,“ sagði Ólafur.

Breitt bros hafði færst yfir andlit þjálfarans þegar lærisveinar hans tóku sig til og tolleruðu hann í fagnaðarlátunum, eins og sjá má í innslaginu hér að neðan.

Klippa: Sportið í kvöld - Ólafur um lokaumferð Íslandsmeistaraársins

Sportið í kvöld er á dagskrá Stöðvar 2 Sports á þriðjudags-, miðvikudags- og fimmtudagskvöldum klukkan 20.00. Upptökur af fyrri þáttum má nálgast á sjónvarpsvef Stöðvar 2. Stöð 2 Sport er hluti af Sportpakkanum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×