Erlent

Helmingur vinnandi fólks í hættu á að missa lífs­viður­væri sitt

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Veitingahúsaeigandi á Ítalíu með lykilinn að veitingastaðnum sínum sem hefur verið lokaður í um tvo mánuði. Hann er einn fjölmargra ítalskra veitingamanna sem hafa verið alveg tekjulausir vegna faraldursins en nú vilja þeir fara að opna og mótmæla ákvörðun yfirvalda sem vilja að staðirnir verði áfram lokaðir.
Veitingahúsaeigandi á Ítalíu með lykilinn að veitingastaðnum sínum sem hefur verið lokaður í um tvo mánuði. Hann er einn fjölmargra ítalskra veitingamanna sem hafa verið alveg tekjulausir vegna faraldursins en nú vilja þeir fara að opna og mótmæla ákvörðun yfirvalda sem vilja að staðirnir verði áfram lokaðir. Getty/Carlo Bressan

Alþjóðavinnumálastofnun telur að helmingur alls vinnandi fólks í heiminum eigi á hættu að missa vinnu sína, að hluta eða öllu leyti, vegna kórónuveirufaraldursins.

Alls eru þetta um 1,6 milljarður manna af þeim þremur milljörðum sem stofnunin telur að séu á vinnumarkaði í heiminum öllum en um er að ræða fólk sem starfar í svokölluðu óformlegu hagkerfi; eru verktakar, ráðinn til skamms tíma eða eru yfir höfuð ekki með ráðningarsamning.

Alþjóðavinnumálastofnun telur að um tveir milljarðar vinnandi fólks starfi í hinu óformlega hagkerfi og að mikill meirihluti þeirra eigi á hættu að missa vinnuna vegna faraldursins.

Stofnunin segir að þessi hætta sé vegna þess að landamæri hafi lokast og samkomubönnum komið á og/eða vegna þess að fólkið vinni í þeim geirum sem faraldurinn hefur haft hvað verst áhrif á.

Hafa misst um 60 prósent af tekjum sínum

Talið er að á fyrsta mánuði faraldursins hafi starfsmenn í óformlega hagkerfinu misst um 60 prósent af tekjum sínum.

Alþjóðavinnumálastofnunin telur að þessi hópur sé sérstaklega viðkvæmur og sé í mikilli hættu á að lenda í fátækt, hann hafi lítinn rétt á vinnumarkaði og búi almennt við lítið starfsöryggi.

Þá vekur stofnunin einnig athygli á því að hætt sé við því að meira en 400 milljón fyrirtæki á heimsvísu muni berjast í bökkum vegna faraldursins.

Aðallega sé um að ræða fyrirtæki sem sinni verslun og þjónustu hvers konar, til dæmis búðir, hótel og gistiheimili og veitingastaði, en þessir geirar hafa orðið illa úti í faraldrinum, til dæmis á Íslandi.

Alþjóðavinnumálastofnunin kallar eftir því að stjórnvöld styðji betur við vinnandi fólk og fyrirtæki, ekki hvað síst lítil fyrirtæki.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×