Erlent

Mike Pence sætir gagn­rýni fyrir að vera ekki með and­lits­grímu í spítala­heim­sókn

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, sést hér í heimsókninni á Mayo Clinic í dag. Hann er sá eini sem ekki er með andlitsgrímu.
Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, sést hér í heimsókninni á Mayo Clinic í dag. Hann er sá eini sem ekki er með andlitsgrímu. AP/Jim Mone

Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, sætir nú töluverðri gagnrýni fyrir að hafa ekki verið með andlitsgrímu þegar hann heimsótti spítalann Mayo Clinic í Minnesota í dag.

Varaforsetinn fer fyrir teymi bandarísku ríkisstjórnarinnar þegar kemur að viðbrögðum yfirvalda í baráttunni gegn kórónuveirunni.

Myndbönd og myndir frá blaðamönnum sem voru viðstaddir heimsókn varaforsetans á spítalann sýna hvar hann stendur umkringdur heilbrigðisstarfsfólki þar sem þau heilsa upp á sjúkling.

Á myndunum sést að allir nema forsetinn eru með andlitsgrímu enda kveða reglur spítalans á um að allir sem þangað komi skuli setja upp grímu til að hjálpa til við að hefta útbreiðslu veirunnar.

Nánast samstundis og myndirnar frá heimsókninni birtust á netinu fékk Pence yfir sig holskeflu af gagnrýni.

Eyddu tístinu

Mayo Clinic sendi frá sér tíst í kjölfarið þar sem kom fram að varaforsetinn hefði verið upplýstur um reglur spítalans áður en hann kom í heimsókn. Tístinu hefur nú verið eytt.

Á meðal þeirra sem hafa gagnrýnt varaforsetann í dag er Brian Schatz, öldungadeildarþingmaður Demókrata, en hann segir að Pence setji hættulegt fordæmi með því að brjóta reglur spítalans með þessum hætti.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Pence er gagnrýndur fyrir að vera ekki með andlitsgrímu í opinberum erindagjörðum.

Fyrr í þessum mánuði birtust myndir af honum, án grímu, þar sem hann heilsaði ríkisstjóra Colorado, Jared Polis. Polis var sjálfur með grímu fyrir vitum sér.

Talsmaður Pence sagði í kjölfarið að varaforsetinn væri ekki með andlitsgrímu því hann væri reglulega skimaður fyrir kórónuveirunni og væri ekki smitaður.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×