Íslenski boltinn

Fjársterkir einstaklingar lífæð knattspyrnudeilda

Sindri Sverrisson skrifar
Jóhann Már Helgason var gestur í Sportinu í dag og fór yfir málin með Henry Birgi og Kjartani Atla.
Jóhann Már Helgason var gestur í Sportinu í dag og fór yfir málin með Henry Birgi og Kjartani Atla. MYND/STÖÐ 2 SPORT

Fjársterkir stuðningsmenn eru lífæð margra knattspyrnudeilda á Íslandi, sérstaklega á meðal bestu liðanna í Pepsi Max-deild karla.

Þetta segir Jóhann Már Helgason, höfundur skýrslu um fjárhagsstöðu íslenskra knattspyrnufélaga, í Sportinu í dag. Í skýrslunni skrifaði hann að við bankahrunið árið 2008 hefðu flestar styrktargreiðslur til félaga minnkað og jafnvel horfið næstu 2-3 árin. Hvað gæti þá gerst núna í kórónuveirukrísunni?

„Það er bara vont að spá um það, vegna þess að manni líður illa við að hugsa til þess. Það eru mjög mörg fyrirtæki sem núna þurfa að halda að sér höndum. Ég kom inn á það þegar ég skrifaði skýrsluna að þessi fyrirtæki sem svo sannarlega styrkja íþróttafélögin í kringum sig og standa sig ótrúlega vel í að gera það… maður skilur að það séu brostnar forsendur hjá þeim og þau þurfi að draga saman seglin. Það sem íþróttafélögin hafa hins vegar, og ég vona svo sannarlega að það verði ekki breyting þar á, eru mjög sterkir bakhjarlar í formi einstaklinga sem leggja rekstrinum lið,“ segir Jóhann. Þessir einstaklingar séu í raun lífæð knattspyrnudeilda:

„Það sem ég á við er að það væri ekki hægt að reka apparatið nema að þessir aðilar kæmu til. Ég held að þannig sé það í flestum tilfellum, sérstaklega í efsta laginu í Pepsi Max-deild karla. Það skiptir gríðarlega miklu máli að það komi svona aðilar inn, stuðningsmenn með stórt hjarta fyrir sínu félagi. Svona greiðslur geta verið eins skiptis greiðslur eða mánaðargreiðslur, það er allur gangur á því, en þetta er það sem skiptir félögin öllu máli. Vonandi verður ekki breyting þar á því þá er útlitið mjög dökkt fyrir reksturinn.“

Klippa: Sportið í dag - Rekstur íslenskra knattspyrnufélaga

Sportið í dag er á dagskrá á Stöð 2 Sport alla virka daga klukkan 15.00. Upptökur af fyrri þáttum má nálgast á sjónvarpsvef Stöðvar 2. Stöð 2 Sport er hluti af Sportpakkanum.


Tengdar fréttir

Veðmálafyrirtæki vildu kaupa nafnið á Valsvellinum

Þegar Valur var að leita að styrktaraðila til að kaupa nafnið á heimavelli félagsins bönkuðu tvö veðmálafyrirtæki upp á. Slíkum fyrirtækjum er óheimilt að auglýsa á íþróttaviðburðum á Íslandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×