Erlent

Andslitsgrímuskylda sett á í Þýskalandi

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Nú er skylda að vera með andlitsgrímu á lestarstöðvum í Þýskalandi.
Nú er skylda að vera með andlitsgrímu á lestarstöðvum í Þýskalandi. Vísir/AP

Nýjar reglur sem gera yfirvöldum kleift að sekta þá sem bera ekki andlitsgrímur um borð í almenningssamgönguvögnum, lestum og í búðum hafa tekið gildi í flestum sambandsríkjum Þýskalands. Hæsta sektin getur numið 1,5 milljón króna en mjög mismunandi er eftir hverju ríki hvernig reglunum verður framfylgt.

Reglurnar, sem settar eru í von um að þær muni hefta úbreiðslu kórónuveirunnar, tóku gildi í fimmtán af sextán sambandsríkjum Þýskalands í morgun. Slésvík-Holstein mun bætast í hópinn á miðvikudaginn. Samkvæmt reglunum er lágmarkssekt fyrir þá ekki bera andlitsgrímur 25 evrur, rétt um fjögur þúsund krónur. Hámarkssektin er öllu hærri eða tíu þúsund evrur, um 1,6 milljónir króna.

Hámarkssektin gildir fyrir verslunareigendur sem ganga ekki úr skugga um að starfsmenn þeirra beri andlitsgrímur. Það er þó mjög mismunandi eftir ríkjum hvernig reglunum verður framfylgt. Þannig hafa yfirvöld í Brandenburg og Berlín sagt að þar verði ekki lagðar á sektir, heldur frekar höfðað til samvisku íbúa um að ganga um með grímurnar þar sem það er skylt.

Yfirvöld hafa einnig lagt áherslu á að andlitsgrímuskyldan feli ekki í sér að grímurnar þurfi að vera læknisfræðilega samþykktar, nóg sé að vera með klút eða annað sem hylur vitin.

Þetta hafa sérfræðingar í smitvörnum gagnrýnt og sagt að klútar og treflar séu gagnlitlir til þess að draga úr smithættu, auk þess sem að í því geti falist falskt öryggi.

Andlitsgrímukrafan gildir um alla þá sem eru sex ára og eldri. Alls hafa um 155 þúsund einstaklingar greinst með kórónuveirusmit í Þýskalandi, 5.750 hafa látist en faraldurinn virðist vera á niðurleið í Þýskalandi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×