Erlent

Karl Bretaprins við góða heilsu

Sylvía Hall skrifar
Karl fyrr í marsmánuði, áður en hann greindist með kórónuveiruna.
Karl fyrr í marsmánuði, áður en hann greindist með kórónuveiruna. Vísir/Getty

Karl Bretaprins segist hafa fengið væg einkenni kórónuveirunnar sem veldur COVID-19 sjúkdómnum en sé nú við góða heilsu. Hann sé þó enn í sjálfskipaðri sóttkví og í félagsforðun, líkt og flestir Bretar.

Þetta kemur fram í myndbandskveðju prinsins sem hann birti í dag. Þar sagði hann þetta vera erfiðan tíma fyrir þjóðina en hrósaði heilbrigðisstarfsmönnum í hástert fyrir störf sín í þessum faraldri.

Tæplega þrjátíu þúsund hafa greinst með kórónuveiruna í Bretlandi og 2.352 látið lífið.

„Okkar bænir og hugsanir eru hjá því frábæra fólki sem nýta ótrúlega hæfileika sína og sýna mikla ósérhlífni við skyldur sínar, hvernig þau hugsa um sjúklinga sína gerir okkur stolt,“ sagði Karl í kveðjunni.

Karl greindist með veiruna fyrir rúmri viku og var settur í einangrun í kjölfarið. Í fyrradag var greint frá því að hann væri kominn úr einangrun.

Eiginkona hans. Camilla Parker-Bowles, var prófuð fyrir veirunni, en reynst neikvæð. Hún verður þó í sóttkví út þessa viku ef ske kynni að hún færi að finna fyrir einkennum.

Samkvæmt upplýsingum frá Buckingham-höll, þar sem Elísabet drottning er til húsa, hitti hún Karl son sinn síðast þann 12. mars og hefur síðan þá verið við góða heilsu. Þannig eru litlar líkur taldar á að hún hafi smitast, enda greindist Karl þó nokkrum dögum síðar.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.