Enski boltinn

Zlatan vill tveggja ára samning

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Manchester United reynir nú hvað það getur að ná samningum við sænska framherjann Zlatan Ibrahimovic sem hefur farið á kostum á sinni fyrstu leiktíð á Old Trafford.

Zlatan er búinn að skora 26 mörk í öllum keppnum og tryggði liðinu um helgina deildabikarinn þegar hann skoraði tvö mörk í 3-2 sigri á Southampton á Wembley, þar á meðal sigurmarkið undir leikslok.

Ensku blöðin greina frá því í morgun að Zlatan sé búinn að taka ákvörðun um að hann vilji vera áfram hjá Manchester United en áður var búið að greina frá því að Svíinn vildi fara til að spila í Meistaradeildinni.

United er enn þá í baráttunni um Meistaradeildarsæti á Englandi og ekki útilokað að liðið snúi aftur í Evrópukeppni þeirra bestu á næstu leiktíð ef það heldur áfram að spila jafnvel og það er að gera og ef Zlatan heldur áfram að skora.

Ef Zlatan á að vera áfram hjá United þarf hann tveggja ára samning en hingað til hefur verið rætt um eins árs framlengingu.

Ensku blöðin greina einnig frá því að bakvörðurinn Luke Shaw ætli sér að yfirgefa Manchester United í sumar og að Wayne Rooney sé opinn fyrir því að ganga aftur í raðir uppeldisfélags síns Everton.


Tengdar fréttir

Zlatan færði Man Utd bikar

Þrátt fyrir að hafa bara spilað með Manchester United í sjö mánuði er Zlatan Ibrahimovic kominn í guðatölu á Old Trafford.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×