Íslenski boltinn

Arnar hélt hann væri hættur í þjálfun en Pepsi-mörkin kveiktu áhugann á ný

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Arnar Gunnlaugsson gerði Víking að bikarmeisturum á sínu fyrsta tímabili með liðið.
Arnar Gunnlaugsson gerði Víking að bikarmeisturum á sínu fyrsta tímabili með liðið. vísir/daníel

Arnar Gunnlaugsson, þjálfari bikarmeistara Víkings, hélt að hann myndi ekki snúa aftur í þjálfun eftir að hann hætti hjá ÍA um mitt sumar 2009. Hann segist hafa fengið smá leið á fótbolta en þátttaka í Pepsi-mörkunum sumarið 2016 hafi kveikt áhugann á ný.

Arnar tók við ÍA, ásamt Bjarka tvíburabróður sínum, í annað sinn um mitt tímabil 2008. Þeim tókst ekki að bjarga Skagamönnum frá falli og þeir hættu svo á miðju tímabili 2009.

„Ég var hálf partinn kominn með leið á fótbolta. Eftir samtöl við aðra leikmenn lenda þeir oft í því sama. Þeir verða þreyttir á fótbolta í 2-3 ár en leikurinn kallar alltaf aftur á þig,“ sagði Arnar í samtali við Ríkharð Óskar Guðnason í Sportinu í kvöld.

„Ég var í Pepsi-mörkunum þetta sumar, 2016, og þá kynnistu leiknum upp á nýtt. Þú færð tilfinningu fyrir leiknum og langar að koma til baka. Svo hringdi Bjarni Guðjónsson, þáverandi þjálfari KR, í mig og bað mig um að gerast aðstoðarþjálfari. Ég stökk á það. Ég var svo feginn og þakklátur.“

Samstarf Arnars og Bjarna var stutt en hann hélt áfram sem aðstoðarþjálfari KR eftir að Willum Þór Þórsson tók við liðinu. 

„Hann vildi hafa mig áfram sem var frábært. Ég lærði hrikalega mikið af honum. Og þá var ekki aftur snúið. Ég byrjaði á þjálfaranámskeiðunum og þá er þetta mitt líf og verður mitt líf það sem eftir er.“

Fyrir tímabilið 2018 færði Arnar sig yfir til Víkings og gerðist aðstoðarmaður Loga Ólafssonar. Hann tók svo við Víkingi fyrir síðasta tímabil og gerði liðið að bikarmeisturum í fyrra. Það var fyrsti stóri titill Víkinga í 28 ár.

Innslagið úr Sportinu í kvöld má sjá hér fyrir neðan.

Klippa: Sportið í dag - Arnar hélt hann myndi ekki þjálfa aftur

Sportið í kvöld er á dagskrá Stöðvar 2 Sports á þriðjudags-, miðvikudags- og fimmtudagskvöldum klukkan 20.00. Upptökur af fyrri þáttum má nálgast á sjónvarpsvef Stöðvar 2. Stöð 2 Sport er hluti af Sportpakkanum.


Tengdar fréttir

Kári hjálpaði mjög mikið úr stúkunni í bikarúrslitaleiknum

Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings R. í fótbolta, fór ítarlega yfir bikarúrslitaleikinn við FH í fyrra þegar hann ræddi við Rikka G í Sportinu í kvöld. Kári Árnason hafði sín áhrif í sigri Víkinga þrátt fyrir að spila ekki.

Þekkti ekki tvíburana í sundur sem varð Arnari til happs

Arnar Gunnlaugsson segir að eftirminnilegasti leikur sinn sé fyrsti leikurinn með ÍA. Hann lék sinn fyrsta leik með Skagaliðinu gegn Keflavík árið 1989, einungis sextán ára gamall, en aðdragandinn var ansi áhugaverður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×