Erlent

Skrifaði undir stærsta björgunarpakka sögunnar

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald Trump og repúblikanar fögnuðu áfanganum í Hvíta húsinu.
Donald Trump og repúblikanar fögnuðu áfanganum í Hvíta húsinu. AP/Evan Vucci

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur skrifað undir stærsta björgunarpakka fyrir fyrirtæki, launafólk og heilbrigðisþjónustu í sögu Bandaríkjanna. Pakkinn hljóðar upp á 2,2 biljónir dala og felur hann meðal annars í sér um 150 milljóna beingreiðslur til bandarískra heimila.

Heimsfaraldur nýju kórónuveirunnar hefur komið verulega niður á efnahagi Bandaríkjanna, eins og í öðrum ríkjum, en staðfest tilfelli eru hvergi fleiri en þar í landi.

Í síðustu viku sóttu 3,3 milljónir Bandaríkjamanna um atvinnuleysisbætur og er það mun meira en sést hefur áður.

Sjá einnig: Fjórfalt fleiri sóttu um atvinnuleysisbætur en nokkru sinni fyrr

Markmið björgunarpakkans er að draga úr efnahagslegu höggi kórónuveiruheimsfaraldursins. Minnkandi umsvif og eftirspurn í hagkerfinu hefur þegar leitt til þess að fyrirtæki hafa sagt upp starfsfólki eða lækkað starfshlutfall þess og fjölgar þeim nú hratt sem sækja um atvinnuleysisbætur.

Sjá einnig: Stærsti björgunarpakki sögunnar samþykktur á Bandaríkjaþingi

Skömmu áður en Trump skrifaði undir frumvarpið beitti hann neyðarlögum til að þvinga fyrirtækið General Motors til að framleiða öndunarvélar. Þær eru mikilvægar vegna Covid-19, sjúkdómnum sem nýja kórónuveiran veldur.

Viðræður hafa átt sér stað á milli Hvíta hússins og GM en Trump sagði í kvöld að forsvarsmenn fyrirtækisins væru að sóa tíma. Því beitti hann neyðarlögunum.

Sérfræðingar segja Bandaríkin þurfa hundruð þúsunda öndunarvéla á næstunni. Trump sjálfur hafði þó þar til í dag, gefið í skyn að þörfin væri ekki jafn mikil og haldið væri fram.

Sjá einnig: Trump efast um þörf fyrir mikinn fjölda öndunarvéla

Miklar deilur urðu á Bandaríkjaþingi í dag eftir að Thomas Massie, þingmaður Repúblikanaflokksins frá Kentucky, þvingaði alla þingmenn til að ferðast frá heimilum sínum í til Washington DC til að greiða atkvæði um frumvarpið.

Massie er mótfallinn björgunarpakkanum og segir að verið sé að eyða of miklu opinberu fé.

Trump gagnrýndi þingmanninn harðlega á Twitter í dag og sagði að réttast væri að víkja honum úr Repúblikanaflokknum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×