Erlent

Vona að breskur almenningur geti byrjað að prófa sig sjálfur fyrir veirunni á næstu dögum

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Heilbrigðisstarfsmenn í Bandaríkjunum prófa hér einstakling fyrir kórónuveirunni.
Heilbrigðisstarfsmenn í Bandaríkjunum prófa hér einstakling fyrir kórónuveirunni. Vísir/Getty

Þúsundir einfaldra heimaprófa fyrir kórónuveirunni verða brátt til sölu, og jafnvel sendar heim að dyrum til Breta sem nú sitja heima í einangrun eða sóttkví með einkenni COVID-19 sjúkdómsins.

Þetta hefur Guardian eftir Lýðheilsustofnun Englands (PHE). Í frétt Guardian kemur fram að Sharon Peacock hjá PHE hafi lýst því yfir að fjöldaprófanir fyrir veirunni verði í boði í síðasta lagi í næstu viku. Áður hafði ríkisstjórn Bretlands fest kaup á þremur og hálfri milljón prófa, en Matt Hancock heilbrigðisráðherra hafði ekki lýst því yfir að þau yrðu aðgengileg almenningi.

Tækið sem notað er til prófunar, sem sagt er líkjast óléttuprófi í útliti, er notað með því að stinga smárri nál í fingur þess sem prófaður er og er blóðið síðan greint af tækinu.

Vísindamenn við Oxford-háskóla munu, áður en prófið verður sett á markað, prófa það til þess að tryggja að virkni þess sé jafn góð og vonir standa til. Þegar því er lokið vonast Peacock til að prófið verði hægt að nota til þess að prófa heilbrigðisstarfsfólk og almenning fyrir kórónuveirunni.

„Nokkrar milljónir prófa hafa verið keyptar. Þetta eru glænýjar vörur, og við verðum að tryggja að þær virki jafn vel og sagt er að þær geri. Um leið og gæði þeirra hafa verið prófuð og meirihluti prófana ná áfangastað sínum, verður þeim dreift um samfélagið,“ segir Peacock.

Stórfyrirtækið Amazon hefur samþykkt að dreifa prófunum, auk þess sem þau verða líklega til sölu í apótekum víðs vegar um Bretland. Þá gerir Peacock ráð fyrir að prófin verði mjög ódyr, ef rukkað verður fyrir þau yfir höfuð.

Eins og stendur hafa á rúmlega 8200 manns greinst með veiruna í Bretlandi en þar af hafa 433 látist af völdum sjúkdómsins sem hún veldur.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.