Erlent

Salmond sýknaður af ákæru um kynferðisbrot

Kjartan Kjartansson skrifar
Alex Salmond yfirgefur dómshús í Edinborg við upphaf réttarhaldanna yfir honum fyrr í þessum mánuði. Hann hefur meðal annars stýrst sjónvarpsþætti á rússnesku ríkissjónvarpsstöðinni RT undanfarin ár.
Alex Salmond yfirgefur dómshús í Edinborg við upphaf réttarhaldanna yfir honum fyrr í þessum mánuði. Hann hefur meðal annars stýrst sjónvarpsþætti á rússnesku ríkissjónvarpsstöðinni RT undanfarin ár. Vísir/EPA

Kviðdómur sýknaði Alex Salmond, fyrrverandi oddvita skosku heimastjórnarinnar, af ákæru um að hann hefði ráðist kynferðislega á níu konur á meðan hann gegndi embætti í gær. Hann hefur alla tíð neitað sök og fullyrðir að logið hafi verið upp á hann í pólitískum tilgangi.

Salmond var sýknaður af tólf ákæruliðum en sök hans var ekki talin sönnuð í þeim þrettánda. Saksóknarar höfðu áður fellt niður ákæru fyrir kynferðisofbeldi gegn tíundu konunni, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.

Þingkona Skoska þjóðarflokksins (SNP), starfsmaður flokksins og nokkrir núverandi og fyrrverandi opinberir starfsmenn og embættismenn voru á meðal þeirra kvenna sem báru Salmond sökum. Hann var meðal annars ákærður fyrir tilraun til nauðgunar. Sum brotin áttu sér stað í Bláa húsinu, forsætisráðherrabústaðnum í Edinborg.

Sjá einnig: Salmond ákærður í kjölfar ásakana um kynferðisbrot

Salmond bar því við fyrir dómi að þær hefðu logið upp á hann eða ýkt atvik. Verjendur hans héldu því fram fyrir dómi að háttsettur embættismaður, sem sakaði Salmond um kynferðisbrot, hefði verið í sambandi við nokkrar af hinum konunum áður en Salmond var ákærður.

Eftir að dómurinn lá fyrir í gær sagði Salmond að hann hefði viljað leggja ákveðin sönnunargöng fram en að það hafi ekki verið hægt „af ýmsum ástæðum“.

„Á einhverjum tímapunkti munu þær staðreyndir og sannanir líta dagsins ljós,“ boðaði Salmond.

Nicola Sturgeon, núverandi oddviti heimastjórnarinnar sem tók við af Salmond árið 2014, sagði að virða yrði niðurstöðu kviðdómsins. Hún taki fagnandi rannsókn skoska þingsins á hvernig ríkisstjórn hennar brást við ásökunum á hendur Salmond.

Heimastjórnin gekkst við því í janúar að hún hefði brotið lög við rannsókn á ásökunum með því að skipa rannsakanda sem hafði komið að málinu á fyrri stigum.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.