Innlent

Sóttu slasaðan skip­verja á fær­eysku skipi við Eyjar

Kristín Ólafsdóttir skrifar
TF-GRO á flugi.
TF-GRO á flugi. Landhelgisgæslan

Áhöfnin á þyrlu Landhelgisgæslunnar TF-GRO sótti slasaðan skipverja um borð í færeyskt línuskip í gærkvöld. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni.

Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar fékk tilkynningu um slys um borð í línuskipinu sem statt var austur af Surtsey. Þyrlan tók á loft frá Reykjavík á sjöunda tímanum í gær en skipið hélt í átt að innsiglingunni að Heimaey.

Þegar TF-GRO kom að skipinu var það komið við Ystaklett og var skipstjóri þess beðinn um að sigla á hægustu stjórnferð í átt að Bjarnarey. Hífingar fóru fram á stefni skipsins og gengu vel.

Tíu mínútum eftir að TF-GRO kom að skipinu var hífingunum lokið og maðurinn kominn um borð í TF-GRO. Skipverjanum var í kjölfarið komið undir læknishendur í Reykjavík.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×