Erlent

Til­mæli um endur­nýtingu hlífðar­búnaðar valda á­hyggjum

Sylvía Hall skrifar
Hátt í 15 þúsund hafa látist í Bretlandi af völdum kórónuveirunnar.
Hátt í 15 þúsund hafa látist í Bretlandi af völdum kórónuveirunnar. Vísir/Getty

Yfirvöld í Bretlandi hvetja nú heilbrigðisstarfsfólk til þess að endurnýta hlífðarfatnað og búnað ef skortur verður. Stéttarfélög lækna og hjúkrunarfræðinga í landinu hafa lýst yfir áhyggjum af þessum tilmælum og segja þau ógna lífi og heilsu starfsfólks.

Hlífðarbúnaðurinn sem um ræðir er notaður við umönnun Covid-19 sjúklinga og verndar starfsfólk fyrir smiti. Vegna mikils álags á sjúkrahúsum landsins bendir margt til þess að hlífðarbúnaðurinn sem notaður er við gjörgæslumeðferð sjúklinga gæti klárast nú um helgina.

Yfirvöld segjast vinna að því að útvega frekari birgðir af hlífðarbúnaði en hafa þó gefið út þau tilmæli nýta búnaðinn sparlega.

Í leiðbeiningum sem gefnar voru út á föstudag kom meðal annars fram að sjúkrahús myndu geyma hlífðarfatnað fyrir skurðaðgerðir eða önnur störf sem fela í sér hættu á smiti ef skortur yrði, eða endurnýta hlífðarfatnað sem hægt væri að þvo. Það væri þó ljóst að það þyrfti að gera einhverjar tilslakanir svo hægt væri að bregðast við miklum skorti á erfiðum tímum.

Hafa misst of marga heilbrigðisstarfsmenn

Hlífðarbúnaðurinn er framleiddur í Kína og höfðu yfirvöld pantað birgðir fyrir nokkrum vikum. Hann er þó aðeins afhentur í takmörkuðu magni hverju sinni.

Dr. Rob Harwood hjá bresku læknasamtökunum er á meðal þeirra sem hefur gagnrýnt þessi tilmæli yfirvalda. Hann segir allar slíkar ákvarðanir verða að byggja á vísindum, en ekki framboði og eftirspurn.

„Ef það er verið að leggja það til að starfsfólk endurnýti búnað, þá verður það að vera byggt á vísindum og sterkum sönnunargögnum frekar en fáanleika og það má alls ekki stofna öryggi heilbrigðisstarfsfólks í hættu,“ segir Harwood og bætir við að nú þegar hefði heilbrigðisstarfsfólk látið lífið í faraldrinum.

„Nú þegar hafa of margir heilbrigðisstarfsmenn dáið. Það er ekki hægt að ætlast til þess að fleiri læknar og samstarfsfólk þeirra leggi líf sitt að veði til þess að bjarga öðrum, og þessi nýju tilmæli geta leitt til þess. Þetta er ekki ákvörðun sem þau ættu að þurfa að taka.“


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×