Erlent

Tíu enn saknað eftir leit í nótt

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Frá leit í Ask nú í morgunsárið á gamlársdag.
Frá leit í Ask nú í morgunsárið á gamlársdag. Vísir/EPA

Tíu er enn saknað í norska bænum Ask, þar sem gríðarlegar leirskriður féllu í fyrrinótt. Leitarhundur ásamt þjálfara, voru látnir síga niður úr þyrlu á hamfarasvæðinu í nótt til að meta aðstæður og leita að fólki. Enginn fannst í aðgerðinni.

Lögregla hefur enn ekki komist inn á skriðusvæðið og fer leit því fram með þyrlum, drónum og hitamyndavélum. Leit stóð yfir í alla nótt en ekkert fékkst upp úr krafsinu, að því er fram kemur í norskum fjölmiðlum í morgun. Áfram verður leitað í dag.

„Við erum enn vongóð um að finna fólk og bjarga lífum,“ segir Dag André Sylju, lögreglumaður sem stýrir aðgerðum í Ask í samtali við NRK í morgun.

„Stærsta áskorunin er að við getum ekki farið inn á svæðið. Við myndum vilja það en getum það ekki. Það er einfaldlega of hættulegt.“

Líkt og áður segir voru leitarhundur, þjálfari hans og björgunarsveitarmaður látnir síga niður úr þyrlu á hamfarasvæðinu í leit að fólki. Þeir voru einnig látnir meta aðstæður á svæðinu og hvort óhætt væri að senda leitarhópa af stað.

Fleiri hús hrundu til grunna seint í gærkvöldi en að minnsta kosti sautján hús eru talin hafa orðið skriðunum að bráð. Í gærkvöldi lækkaði tala þeirra sem er saknað niður í tíu, eftir að nokkrir tilkynntu að þeir hefðu verið í burtu þegar hamfarirnar urðu.

Þúsund íbúum hefur nú verið gert að yfirgefa heimili sín. Sérfræðingar telja að hætta sé á fleiri skriðum en þó ekki jafnstórri og féll í fyrrinótt.


Tengdar fréttir

Fimmtán enn saknað í Ask

Fimmtán er enn saknað eftir að stærðarinnar leirskriður féllu í nótt í bænum Ask í Noregi.

Að minnsta kosti níu slasaðir og mikil eyði­legging

Að minnsta kosti níu eru slasaðir eftir jarðvegsskriðurnar sem féllu í norska bænum Ask, norðaustur af Osló, í nótt. Myndir frá vettvangi sýna fram á mikla eyðileggingu á staðnum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×