Enski boltinn

Leik Fulham og Tottenham frestað vegna smita

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Tottenham hefur leikið sinn síðasta leik á árinu 2020.
Tottenham hefur leikið sinn síðasta leik á árinu 2020. getty/Tottenham Hotspur FC

Leik Fulham og Tottenham í ensku úrvalsdeildinni hefur verið frestað vegna kórónuveirusmita í herbúðum Fulham.

Þetta er annar leikurinn á síðustu þremur dögum í ensku úrvalsdeildinni sem getur ekki farið fram vegna kórónuveirusmita. Í fyrradag var leik Everton og Manchester City frestað sökum smita í herbúðum City.

Fyrr í dag birti José Mourinho, knattspyrnustjóri Tottenham, færslu á Instagram þar sem hann lýsti yfir óánægju sinni að vita ekki hvort leikur kvöldsins myndi fara fram. 

„Leikur klukkan sex. Vitum ekki hvort við spilum. Besta deild í heimi,“ skrifaði Mourinho við myndina sem hann birti.

Með sigri í leiknum í kvöld hefði Tottenham getað komist upp í 3. sæti ensku úrvalsdeildarinnar. Liðið er nú í 7. sætinu með 26 stig.

Einn leikur fer fram í ensku úrvalsdeildinni í kvöld en það er jafnframt síðasti leikur ársins í deildinni. Þá sækja Englandsmeistarar Liverpool Newcastle United heim klukkan 20:00.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×