Erlent

Slaka á sóttvörnum yfir blájólin með „jólakúlum“

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Búið er að tilkynna tilslakanir á sóttvörnum yfir blájólin í Bretlandi.
Búið er að tilkynna tilslakanir á sóttvörnum yfir blájólin í Bretlandi. Getty/Dan Kitwood

Yfirvöld í Bretlandi hafa tilkynnt að slakað verður á samkomutakmörkunum og sóttvarnarráðstöfunum yfir blájólin þar í landi. Ferðatakmörkunum verður aflétt og meðlimir allt að þriggja heimila mega koma saman með því að mynda svokallaða jólakúlu, eða sóttvarnarbúbblu. Vísindamenn hafa varað við því að ráðstafanirnar muni óumflýjanlega leiða til fjölgunar á smitum.

Hinar nýju reglur gilda í Bretlandi frá 23. desember til 27. desember og fela það í sér að meðlimir þriggja heimila mega koma saman yfir blájólin til þess að fagna jólunum, halda veislur og þar fram eftir götunum. Þeir sem mynda slíka sóttvarnarbubblu eða jólakúlu (e. christmas bubble) líkt og það er orðað í tilkynningu frá forsætisráðuneyti Bretlands verða þó að halda sig innan þessarar kúlu.

Þannig er þeim sem mynda slíka jólakúlu ekki heimilt að heimsækja veitingastaði eða knæpur eða bæta fleirum við þær á seinni stigum. Ekki þarf að fylgja reglum um fjarlægðartakmarkanir í kúlunum, og mega þeir sem þær mynda til að mynda faðma hvert annað, að því fram kemur í frétt Guardian.

Á vef BBC segir að ferðatakmörkunum sem eru nú í gildi verði einnig aflétt umrætt tímabil um allt Bretland. Íbúum Skotlands, Englands, Wales og Norður-Írlands verður þannig heimilt að ferðast að vild um Bretland svo að fjölskyldur geti komið saman yfir jólin.

Leiðtogar Englands, Skotlands, Wales og Norður-Írlands komu sér saman um reglurnar sem gilda um jólin og hvetja þeir landsmenn til þess að huga engu að síður vel að sóttvörnum, þótt slakað verði á sóttvarnarráðstöfunum yfir blájólin.

Þann 28. desember taka sömu reglur og hafa verið í gildi aftur gildi, með þeirri undantekningu að aflétting ferðatakmarkana gildir frá 22. desember til 28. desember fyrir þá sem búsettir eru í Norður-Írlandi.

Vísindamenn segja að smitum muni fjölga

Í frétt Guardian segir að vísindamenn hafi í einhverjum tilvikum varað við því að slaka á sóttvarnarráðstöfunum yfir jólin og er þar meðal annars vitnað í sérfræðing á vegum vísindaráðgjafanefndar bresku ríkisstjórnarinnar sem látið hefur hafa eftir sér að ráðstafnir á borð við þessar geti falið það í sér að fjölskyldur og vinir geti átt „gleðileg jól en svo komi jarðarfarir í janúar og febrúar.“

Grímur eru áberandi í Bretlandi.Getty/Andrew Milligan

Haft er eftir Paul Hunter, prófessor í læknavísindum við East Anglia háskólann að það geti litið þannig út að tilslakanir yfir jólin geti verið það sem muni koma landsmönnum yfir erfiðasta hjallann, andlega séð, en engu að síður sé verulega hætta á því að smitum fari fjölgandi.

55 þúsund manns hafa látist af völdum Covid-19 í Bretlandi frá því í mars, 1,5 milljón manns hafa smitast frá því að faraldurinn hófst í vor. Seinni bylgja faraldursins virðist vera í rénun í Bretlandi en þar náðu dagleg smit hámarki þann 12. nóvember þegar 33 þúsund smit greindust. Í gær greindust 15 þúsund smit.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.