Enski boltinn

Gefa fé­laga­skiptum Rúnars Alex fall­ein­kunn

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Daily Mail gefur ekki mikið fyrir vistaskipti Rúnars.
Daily Mail gefur ekki mikið fyrir vistaskipti Rúnars. Mike Hewitt/Getty Images

Enska götublaðið Daily Mail fór yfir félagaskipti „stóru sex“ liðanna í ensku úrvalsdeildinni nú í síðasta félagaskiptaglugga og gaf einkunn. Þar fá félagaskipti landsliðsmarkvarðarins Rúnars Alex Rúnarssonar falleinunn.

Rúnar Alex gekk í raðir Arsenal í sumar frá franska félaginu Dijon. Íslenski landsliðsmarkvörðurinn hefur ekki enn spilað fyrir félagið í ensku úrvalsdeildinni. Hann hefur þó leikið fjóra leiki í Evrópudeildinni og einn í deildabikarnum en hann stóð vaktina gegn Manchester City í 4-1 tapi.

Rúnar Alex hefur staðið sig með prýði í Evrópudeildinni en fékk á sig klaufalegt mark gegn City og pennar Daily Mail eru eflaust að horfa meira í það heldur en eitthvað annað er einkunn var gefin.

„Rúnarsson hefur ollið vonbrigðum á þessari leiktíð. Ekki aðeins þegar kemur að því að spila boltanum heldur einnig varðandi það að verja skot eins og sást gegn Molde og Dundalk í síðustu tveimur Evrópudeildarleikjum liðsins,“ segir í umfjöllun Daily Mail um Rúnar Alex en hann fær fjóra af tíu í einkunn.

Willian, samherji Rúnars hjá Arsenal, fær lægstu einkunn allra á lista á Daily Mail eða þrjá. Þá hæstu fær svo Diogo Jota, leikmaður Liverpool, eða níu. Hér að neðan má sjá allar einkunnir miðilsins.

Einkunnir Daily Mail

Liverpool: Diego Jota [9], Thiago Alcantara [5] og Kostas Tsimikas [5].

Manchester United: Edinson Cavani [7], Alex Telles [7] og Donny van de Beek [5].

Manchester City: Ferran Torres [8], Nathan Ake [6] og Ruben Dias [7].

Chelsea: Timo Werner [5], Kai Havertz [4], Thiago Silva [8], Edouard Mendy [7], Ben Chilwell [7] og Hakim Ziyech [7].

Arsenal: Willian – 3, Gabriel Magalhaes [7], Thomas Partey [6], Rúnar Alex [4] og Dani Ceballos [5].

Tottenham Hotspur: Gareth Bale [5], Carlos Vinivius [6], Sergio Reguilon [7], Pierre-Emile Hojberg [8], Matt Doherty [4], Joe Hart [4] og Joe Rodon [6].




Fleiri fréttir

Sjá meira


×