Enski boltinn

Mo Salah svaraði með einu stóru brosi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mohamed Salah hefur skorað mest allra leikmanna í ensku úrvalsdeildinni á þessari leiktíð.
Mohamed Salah hefur skorað mest allra leikmanna í ensku úrvalsdeildinni á þessari leiktíð. EPA-EFE/Shaun Botterill

Mohamed Salah hefur svarað nýjustu vangaveltunum um framtíð hans á Anfield og notaði hann samfélagsmiðla sína til þess.

Framherji Liverpool hefur raðað inn mörkum fyrir efsta lið ensku úrvalsdeildarinnar en hann átti að vera ósáttur með lífið í Bítlaborginni.

Svar Mohamed Salah við nýjustu fréttunum um sig var einfalt en um leið mjög táknrænt.

Vinur Mohamed Salah úr egypska landsliðinu veitti viðtal á dögunum þar sem hann ræddi um Mohamed Salah og þá staðreynd hversu óánægður Salah væri hjá Liverpool.

Salah átti meðal annars að hafa orðið reiður yfir því að fá ekki fyrirliðabandið á móti danska félaginu Midtjylland í Meistaradeildinni.

Umræddur vinur Salah og fyrrum liðsfélagi heitir Mohamed Aboutrika og hann sagði að það væru margar ástæður fyrir óánægju Salah hjá Liverpool og ennfremur að hann væri viss um að Liverpool myndi reynda að selja hann.

Það er ekki hægt að túlka nýjustu færslu Mohamed Salah á samfélagsmiðlum sem annað en svar við þessum fréttum um meinta óánægju hans hjá Liverpool.

Mohamed Salah birti þar mynd af sér skælbrosandi. Það er ekki oft sem við sjáum Egyptan svona sáttan með lífið og tilveruna.

Mohamed Salah hefur líka yfir mörgu að gleðjast því hann er kominn með tveggja marka forskot á listanum yfir markahæstu menn eftir tvö mörk á móti Crystal Palace í ensku úrvalsdeildinni um helgina.

Liverpool liðið er líka með fjögurra stiga forskot á toppi deildarinnar þegar jólahátíðin rennur í garð og auk þess komið áfram í sextán liða úrslit Meistaradeildarinnar.

Mohamed Salah hefur skorað 13 mörk í 13 leikjum í ensku úrvalsdeildinni á leiktíðinni og er að skora á 83 mínútna fresti í þessum leikjum.

Hann er með 5 mörk og 3 stoðsendingar í 5 leikjum síðan að hann snéri aftur eftir að hafa fengið kórónuveiruna í Egyptalandi í landsleikjaglugganum.


Tengdar fréttir

Salah búinn að ná Cristiano Ronaldo

Mohamed Salah skoraði fyrsta mark Liverpool í 4-0 sigrinum á Úlfunum í ensku úrvalsdeildinni í gær og er þar með búinn að skora 84 mörk í ensku úrvalsdeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×