Erlent

Biden fékk bóluefnið í beinni

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Joe Biden, verðandi forseti Bandaríkjanna, var bólusettur í daag.
Joe Biden, verðandi forseti Bandaríkjanna, var bólusettur í daag. AP/Carolyn Kaster

Joe Biden, verðandi forseti Bandaríkjanna, var í dag bólusettur fyrir kórónuveirunni. Bólusetningin fór fram í beinni útsendingu í von um að það sýni Bandaríkjamönnum að bólusetningarnar gegn Covid-19 séu almennt öruggar.

Biden heimsótti sjúkrahús í bænum Newark í Delaware-ríki þar sem hjúkrunarfræðingur að nafni Tabe Masa sprautaði bóluefni Pfizer og BioNTech í hægri handlegg hins verðandi forseta

Vika er liðin frá því að bólusetningar á forgangshópum hófust í Bandaríkjunum en stutt er síðan Matvæla- og lyfjastofnun Bandaríkjanna veitti neyðarleyfi svo að bólusetning með bóluefni Pfizer gæti hafist í Bandaríkjunum.

Það fór vel á með þeim Masa og Biden á meðan sú fyrrnefnda undirbjó sprautuna sem er sú fyrri af tveimur sem þarf til að ná 95 prósent virkni gegn veirunni. Ekki hefur verið greint frá því hvenær síðari bólusetning Bidens fer fram.

Myndavélarnar fylgdust grannt með þegar Biden var sprautaður en helstu sjónvarpsstöðvar í Bandaríkjunum sýndu beint frá viðburðinum.

„Ég er að gera þetta til þess að sýna fram á að Bandaríkjamenn eiga að vera reiðubúnir þegar tækifærið gefst að fá bóluefnið. Það er algjörlega óþarft að hafa áhyggjur,“ sagði Biden.

Kórónuveirufaraldurinn hefur verið í talsverðum vexti í Bandaríkjunum í vetur en alls hafa yfir 150 þúsund manns greinst með veiruna daglega undanfarna daga. Frá því í vor hafa 17,9 milljón tilfelli greinst í Bandaríkjunum og 318 þúsund hafa látist.

Biden hefur sagt að það verði forgangsverkefni hans þegar hann tekur við embætti forseta að dreifa bóluefni til Bandaríkjamanna eins fljótt og auðið er.


Tengdar fréttir

Biden bólu­settur eftir helgi

Joe Biden, verðandi forseti Bandaríkjanna, og Dr. Jill Biden, eiginkona hans, munu fá fyrri skammt bóluefnis við Covid-19 á mánudaginn.

Vara­for­seti Banda­ríkjanna bólu­settur í beinni

Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, var í dag bólusettur fyrir Covid-19 í beinni útsendingu. „Ég fann ekkert fyrir þessu,“ sagði hann við myndavélina eftir að hann var bólusettur.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.