Innlent

Þjóð­verjar ef­laust ekki allir kátir með „jóla­gjöfina“

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Ásta Valdimarsdóttir, ráðuneytisstjóri heilbrigðisráðuneytisins.
Ásta Valdimarsdóttir, ráðuneytisstjóri heilbrigðisráðuneytisins. Almannavarnir

Íslensk stjórnvöld telja sig hafa tryggt bóluefni fyrir alla þjóðina og sjá fyrir sér að hægt verði að bólusetja meginhluta þjóðarinnar á næstu mánuðum. Þá telja stjórnvöld að hagsmunum Íslendinga sé betur borgið í samstarfi við hið fjölmenna Evrópusamband. Einnig hefði verið nær ómögulegt að sjá það fyrir í vor að Pfizer ætti eftir að taka forystuna í bóluefnakapphlaupinu.

Þetta kom fram á upplýsingafundi almannavarna vegna kórónuveirunnar í dag, þar sem umræða um bóluefni gegn veirunni var í algleymingi.

Jafnvel skammtar fyrir 435 þúsund manns

Svona er staðan eins og hún lítur út núna: Ríkið er með samninga við sex framleiðendur bóluefna. Tveir þessara samninga hafa verið undirritaðir; við AstraZeneca og Pfizer. Sá þriðji við Janssen verður undirritaður á morgun eða hinn.

Fjórði samningurinn verður svo undirritaður við Moderna 31. desember. Endanlega tala bóluefnaskammta frá Moderna liggur hins vegar ekki fyrir. Fundað verður um markaðsleyfi fyrir bóluefnið 6. janúar næstkomandi.

„Með þremur samningum, Astra, Pfizer og Janssen verða tryggðir skammtar fyrir alla þjóðina og rúmlega það, eða 376 þúsund, jafnvel 435 þúsund þar sem það er talið að Janssen-bóluefnið þurfi aðeins að gefa einu sinni. Þetta kemur í ljós við útgáfu markaðsleyfis,“ sagði Ásta Valdimarsdóttir, ráðuneytisstjóri heilbrigðisráðuneytisins. Hún benti jafnframt á að þegar samið er um bóluefnin er ekki samið um afhendingartíma.

Tíu þúsund skammtar af bóluefni Pfizer, sem duga fyrir fimm þúsund manns, eru væntanlegir til landsins 28. desember. Ákveðinn fjöldi skammta frá Pfizer er svo tryggður út mars; 50 þúsund skammtar sem duga fyrir 25 þúsund manns.

„Miðað við okkar samninga og að því tilskildu að markaðsleyfi fáist fyrir fyrrgreindum bóluefnum teljum við að hægt verði að bólusetja meginhluta þjóðarinnar á næstu mánuðum,“ sagði Ásta.

„Og þegar ég segi næstu mánuðum, það getur verið þrír, fjórir, fimm mánuðir. En við verðum bara að sýna þolinmæði eins og aðrar þjóðir.“

Pfizer mjög langt niðri á listanum fyrr á árinu

Líkt og fram hefur komið semur Ísland um bóluefni í gegnum Evrópusambandið. Ásta var spurð að því hvort Ísland hefði getað samið sjálft um skammta fyrir Ísland, sem hefði jafnvel sett landið í lykilstöðu vegna fámennis. Enn fremur hefði þá verið hægt að semja um annað bóluefni en AstraZeneca, sem virðist veita minni vörn en til dæmis bóluefni Pfizer.

Ásta benti á að ríki þurfi sjálf að semja um bóluefni. Ríki væru misstór og misöflug. Ráðuneytið hefði þannig talið, og telji enn, að Ísland hefði sterkari samningsstöðu með Evrópusambandinu og Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni.

Þá benti Ásta á að möguleg kaup á bóluefnum hefðu verið rædd í vor. Í júní þegar fjármögnun bóluefnakaupa var til umræðu hefðu allir haldið að Sanofi-bóluefnið yrði fyrst á markað.

„Pfizer var mjög langt niðri á listanum. Þannig að það lýsir því hversu ótrúlegir hlutir hafa gerst á þessu ári. Það hefur verið mjög erfitt fyrir samningsaðila að vita nákvæmlega hvernig þeir ættu að dreifa eggjunum eða fjármunum milli þessara lyfjafyrirtækja. Astra var talið lengi það fyrsta til að fá markaðsleyfi. […] En við teljum hagsmunum Íslands betur farið í samstarfi við aðra og þessu stóra samstarfi með 446 milljónum í Evrópusambandinu.“

Þá benti Ásta á að nú væru samningafundir í gangi milli ESB og Pfizer um mögulegar viðbætur við samninginn.

„Það er of snemmt að segja hversu mikil sú viðbót verður. En allar viðbætur sem ESB nær að semja um munu líka koma til Íslands. Við fáum alltaf hlutfall af þessum samningum,“ sagði Ásta.

Þá benti hún á að þessir fyrstu tíu þúsund skammtar sem eru á leiðinni til Íslands hafi verið kallaðir „jólagjöfin“ til ríkjanna – og öll ríki fái jafnstóran skammt.

„Þannig að Þjóðverjar fá tíu þúsund og við fáum tíu þúsund. Það eru kannski sumir Þjóðverjar ekkert voðalega glaðir með það.“

Telur misræmi í upplýsingagjöf

Þá velti Ásta fyrir sér af hverju það væri svona eftirsóknarvert að kaupa bóluefni fyrir 200 prósent af þjóðinni, líkt og mörg af vestrænum ríkjum hafa gert. Þar má nefna Kanada, sem samkvæmt úttekt Bloomberg hefur tryggt sér bóluefni fyrir rúmlega 500 prósent af íbúum, og þá hafa ríki Evrópusambandsins tryggt sér bóluefni fyrir 172 prósent þjóðar.

„Þetta hefur verið gagnrýnt af Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni og Sameinuðu þjóðunum að ríkari ríki hafa tryggt sér umframmagn á meðan önnur ríki hafa ekki aðgang að neinu bóluefni,“ sagði Ásta.

Ásta var einnig innt eftir því af hverju hefur gætt misræmi í því sem stjórnvöld segja og því sem kom fram í umfjöllun fréttaveitunnar Bloomberg. Í úttekt Bloomberg segir að Ísland hafi aðeins tryggt sér bóluefni fyrir 61 prósent íbúa en stjórnvöld segja að bóluefni hafi verið tryggt fyrir 87 prósent.

Ásta sagði þetta misræmi í upplýsingagjöf og vissi í raun ekki hvaðan hún kæmi. Hugsanlega liggi misræmi í því hvernig ríki telji samningana og hvenær þeir teljist tryggðir. Einnig sé hugsanlegt að einhver ríki telji Covax-samninga með en þeir samningar eru þó fyrst og fremst hugsaðir fyrir þróunarríki.


Tengdar fréttir

Fullvissaði Katrínu um aðgengi Íslands að bóluefni í „góðu símtali“

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra átti símafund með Ursulu von der Leyen forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um bóluefni gegn kórónuveirunni í morgun. Von der Leyen lýsti fundinum sem farsælum á Twitter í morgun og kvaðst hafa fullvissað forsætisráðherra að Ísland fengi bóluefni fyrir 27. desember.

Segja bólu­efni fyrir 87 prósent þjóðarinnar tryggt

Íslensk stjórnvöld hafa þegar tryggt bóluefni sem dugir fyrir 87% þjóðarinnar í gegnum samstarf Evrópuþjóða með samningum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, að því er fram kemur í tilkynningu frá Stjórnarráðinu.

Neyðarleyfi í höfn hjá Moderna

Bandaríska lyfjaeftirlitið hefur veitt bóluefni Moderna neyðarleyfi í kjölfar einróma niðurstöðu ráðgjafaráðs stofnunarinnar um að mæla með veitingu leyfisins. Yfirvöld hafa gert samninga um kaup á 200 milljónum skammta frá fyrirtækinu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×