Innlent

Bloom­berg upp­færir Ís­lands­tölur í bólu­efna­út­tekt

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Ísland er orðið dökkgult á korti Bloomberg en var áður ljósgult.
Ísland er orðið dökkgult á korti Bloomberg en var áður ljósgult. SKjáskot/Bloomberg

Fréttaveitan Bloomberg hefur uppfært tölur fyrir Ísland í úttekt sinni um hversu mikið bóluefni fyrir kórónuveirunni ríki heims hafa tryggt sér. Ísland er nú sagt hafa tryggt sér bóluefni fyrir 61 prósent íbúa, sem er þó öllu minna en heilbrigðisráðuneytið gaf út í gær í kjölfar úttektarinnar.

Í fyrstu útgáfu af úttekt Bloomberg kom fram að Íslendingar hefðu tryggt sér bóluefnaskammta fyrir 103 þúsund manns, eða 29 prósent af íbúum.

Löndum úttektarinnar var jafnframt gefinn litur eftir því hversu marga skammta af bóluefni þau hafa tryggt sér miðað við íbúafjölda. Þau sem hafa tryggt sér mest af efninu eru dökkgræn en þau sem hafa tryggt sér minnst eru ljósgul. Ísland var fyrst ljósgult, líkt og mörg af fátækustu ríkjum heims á kortinu, en er nú orðið dökkgult og þá á pari við lönd á borð við Brasilíu og Egyptaland.

Eftir að fjallað var um úttekt Bloomberg birti heilbrigðisráðuneytið tilkynningu á vef sínum í gær þar sem áréttað er að stjórnvöld hafi tryggt bóluefni fyrir 87 prósent þjóðarinnar í gegnum samninga Evrópusambandsins.

Þannig tryggi samningar við Pfizer og AstraZeneca, sem þegar hafa verið undirritaðir, bóluefni fyrir 200 þúsund manns. Þriðji samningurinn við Janssen verði undirritaður á Þorláksmessu og tryggi skammta fyrir 117.500 manns. Þessir þrír samningar eru sagðir tryggja bóluefni fyrir rúmlega 317 þúsund manns, samkvæmt tilkynningu. Í fyrri útgáfu var þessi tala þó sögð 376 þúsund en það hefur nú verið leiðrétt. Samningur við Moderna verði svo undirritaður á gamlársdag en ekki liggi fyrir hversu marga skammta Íslendingar fái.

Í úttekt Bloomberg er Ísland nú sagt hafa tryggt sér bóluefni fyrir 218 þúsund manns eða 61 prósent íbúa. Ekki er skýrt á hverju þessar tölur eru nákvæmlega byggðar en þær eru þó nálægt því sem samningar við Pfizer og AstraZeneca tryggja, samkvæmt upplýsingum ráðuneytisins; skammtar fyrir 200 þúsund íbúa.


Tengdar fréttir

Segja bólu­efni fyrir 87 prósent þjóðarinnar tryggt

Íslensk stjórnvöld hafa þegar tryggt bóluefni sem dugir fyrir 87% þjóðarinnar í gegnum samstarf Evrópuþjóða með samningum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, að því er fram kemur í tilkynningu frá Stjórnarráðinu.

„Við erum ekkert að fara á taugum yfir þessu núna“

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir ekki hafa komið til skoðunar að leggja til að gripið verði til sérstakra ráðstafana vegna nýs afbrigðis kórónuveirunnar sem komið hefur upp í Bretlandi, og er talið meira smitandi en önnur afbrigði.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.