Innlent

Fullvissaði Katrínu um aðgengi Íslands að bóluefni í „góðu símtali“

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Ursula von der Leyen birti þessa mynd með tísti sínu í morgun. Ætla má að myndin sýni forsetann í miðjum samræðum við Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra Íslands.
Ursula von der Leyen birti þessa mynd með tísti sínu í morgun. Ætla má að myndin sýni forsetann í miðjum samræðum við Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra Íslands. Twitter

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra átti símafund með Ursulu von der Leyen forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um bóluefni gegn kórónuveirunni í morgun. Von der Leyen lýsti fundinum sem farsælum á Twitter í morgun og kvaðst hafa fullvissað forsætisráðherra að Ísland fengi bóluefni fyrir 27. desember.

„Gott símtal við Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra Íslands. Fullvissaði [Katrínu] um að Ísland fái einnig aðgang að fyrstu sendingum af bóluefninu í tæka tíð fyrir bólusetningardaga Evrópusambandsins, ef samþykki fæst í dag. Við stöndum öll saman í þessu,“ skrifar Von der Leyen á Twitter í morgun.

Umræddir „bólusetningardagar“ eru dagana 27., 28. og 29. desember en þá er ráðgert að hefja bólusetningu með bóluefni lyfjaframleiðandanna Pfizer og BioNTech í löndum Evrópusambandsins.

Sérfræðinganefnd Lyfjastofnunar Evrópu kemur saman í dag til þess að afgreiða umsókn Pfizer og BioNTech um skilyrt markaðsleyfi fyrir bóluefninu. Búist er við því að leyfið verði samþykkt og að bólusetning hefjist í kjölfarið. Þegar er byrjað að bólusetja með efninu í Bretlandi, Bandaríkjunum og Kanada.

Fundar linnulaust um bóluefni í dag

Róbert Marshall upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar segir í samtali við Vísi að Von der Leyen og Katrín hafi átt símafund um stöðu bóluefna í morgun. Þær hafi m.a. rætt tímalínu dreifingar og afhendingaráætlanir. Þá mun Katrín funda nær linnulaust um bóluefni í dag, að sögn Róberts.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra sagði í samtali við fréttastofu á föstudag að allar þjóðir Evrópu fái tíu þúsund skammta frá Pfizer strax fyrir eða um jólin. Síðan hæfist hlutfallsleg afhendingaráætlun fyrir öll ríki Evrópu. Samkvæmt henni fær Ísland milli þrjú til fjögur þúsund skammta á viku frá 27. desember og út mars. Ráðgert er að bólusetning geti hafist hér á landi í næstu viku.

Samkvæmt upplýsingum frá heilbrigðisráðuneytinu hefur Ísland tryggt sér skammta af bóluefni fyrir 87 prósent þjóðarinnar í gegnum samninga Evrópusambandsins við lyfjaframleiðendur.


Tengdar fréttir

Bloom­berg upp­færir Ís­lands­tölur í bólu­efna­út­tekt

Fréttaveitan Bloomberg hefur uppfært tölur fyrir Ísland í úttekt sinni um hversu mikið bóluefni fyrir kórónuveirunni ríki heims hafa tryggt sér. Ísland er nú sagt hafa tryggt sér bóluefni fyrir 61 prósent íbúa, sem er þó öllu minna en heilbrigðisráðuneytið gaf út í gær í kjölfar úttektarinnar.

„Við erum ekkert að fara á taugum yfir þessu núna“

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir ekki hafa komið til skoðunar að leggja til að gripið verði til sérstakra ráðstafana vegna nýs afbrigðis kórónuveirunnar sem komið hefur upp í Bretlandi, og er talið meira smitandi en önnur afbrigði.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.