Erlent

Pet­ter Nort­hug dæmdur í sjö mánaða fangelsi

Atli Ísleifsson skrifar
Petter Northug lagði skíðin á hilluna árið 2018.
Petter Northug lagði skíðin á hilluna árið 2018. Getty

Dómstóll í Noregi dæmdi í dag gönguskíðakappann Petter Northug í sjö mánaða óskilorðsbundið fangelsi og ævilanga ökuleyfissviptingu fyrir ofsaakstur og vörslu fíkniefna.

Northug er ofurstjarna í Noregi og einn sigursælasti íþróttamaðurinn í sögu gönguskíðaíþróttarinnar með fjölda Ólympíuverðlauna og heimsmeistaratitla á ferilskránni.

Northug var meðal annars dæmdur fyrir ofsaakstur í fjórgang í ágúst síðastliðinn. Hraðast ók hann þann 12. ágúst síðastliðinn, á 204 kílómetra hraða á vegi þar sem er 80 kílómetra hámarkshraði. Hann á einnig að hafa tekið aksturinn upp á síma og ekið á öfugri akrein.

Hann var einnig dæmdur fyrir vörslu fíkniefna sem fundust á heimili hans – sex grömm af kókaíni, 0,6 grömm af MDMA, þrjár töflur af Diazepam og tvær töflur af Alprazolam.

Hinn 34 ára Northug greindi frá brotunum og glímu sína við fíkniefnadjöfulinn á blaðamannafundi 21. ágúst. Sagðist hann hafa verið edrú síðan hann var tekinn af lögreglu, og að sögn dómarans í dag er Northug það enn.

Northug var árið 2014 dæmdur í fimmtíu daga fangelsi og greiðslu 185 þúsund norskra króna fyrir ölvunarakstur. Hann afplánaði þann dóm með ökklaband. Dómarinn segir að fyrri brot Northug hafi leitt til refsiþyngingar nú.

Northug lagði skíðin á hilluna árið 2018.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.