Enski boltinn

Grínaðist með að Liver­pool ætti að kaupa Thiago í janúar

Anton Ingi Leifsson skrifar
Klopp fagnar sigrinum á Tottenham fyrr í vikunni.
Klopp fagnar sigrinum á Tottenham fyrr í vikunni. Tottenham Hotspur FC/Getty

Jurgen Klopp, stjóri Liverpool, grínaðist með það á blaðamannafundi fyrir leik Liverpool um helgina að liðið ætti að reyna klófesta miðjumanninn Thiago Alcantara í janúarglugganum.

Klopp og hans menn borguðu 25 milljónir punda fyrir Spánverjann í sumar en hann hefur einungis spilað tvo leiki eftir komuna. Hann meiddist í grannaslagnum gegn Everton í október.

„Við höfum nú þegar grínast með að við ættum að kaupa Thiago í janúar,“ sagði Klopp léttur í bragði fyrir leik Liverpool gegn Crystal Palace í hádeginu á morgun.

„Hann færist nær og nær en við munum ekki flýta okkur. Við getum ekki flýtt okkur og við munum ekki ýta á hann því það er ekki í boði,“ bætti hann við um stöðuna á Thiago.

Thiago er nú byrjaður að æfa úti einnig á fótboltavellinum en ekki bara bara í líkamsræktarsalnum. Það gleður Klopp.

„Auðvitað er gott að fá hann aftur á völlinn og að æfa en hann er ekki byrjaður að æfa með liðinu og það er síðasta skrefið. Ég veit ekki hvort að hann sé orðinn hundrað prósent en það eru nokkur próf eftir þangað til hann verður klár.“

Klopp sagði einnig að James Milner og Xherdan Shaqiri nálguðust endurkomu hjá toppliðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×