Erlent

Vill heimila frekari rann­sóknir á flaki Estonia

Atli Ísleifsson skrifar
Ástæða þess að Estonia-slysið er aftur komið í kastljós fjölmiðla eru nýir heimildamyndarþættir þar sem segir frá áður óuppgötvuðu gati, fjögurra metra löngu og 1,2 metrar þar sem það er breiðast, á stjórnborðssíðu skrokks ferjunnar.
Ástæða þess að Estonia-slysið er aftur komið í kastljós fjölmiðla eru nýir heimildamyndarþættir þar sem segir frá áður óuppgötvuðu gati, fjögurra metra löngu og 1,2 metrar þar sem það er breiðast, á stjórnborðssíðu skrokks ferjunnar. Getty/Epa

Rannsóknarnefnd samgönguslysa í Svíþjóð hefur krafist þess að frekari rannsóknir verði gerðar á flaki farþegaferjunnar Estonia sem sökk í Eystrasalti árið 1994 og farið fram á að ríkisstjórn landsins aflétti grafhelgi flaksins.

Þetta sagði sænski innanríkisráðherrann Mikael Damberg í dag. Segir hann ríkisstjórnina nú vinna að lagabreytingum til að hægt sé að kafa niður að flakinu. Estonia hvílir nú á hafsbotni í Eystrasalti eftir að hafa sokkið í óveðri aðfaranótt 28. september árið 1994. Alls fórust 852 manns þegar skipið sökk og komust einungis 137 lífs af.

Vilji stendur til að ráðast í frekari rannsóknir í kjölfar nýrra upplýsinga sem komu fram í heimildargerðarmynd sem sýnd var í haust þar sem sagt var frá áður óþekktu, fjögurra metra löngu og 1,2 metra breiðu gati á síðu skrokksins. Gatið hafði áður snúið niður að hafsbotni en vegna hreyfinga á flakinu síðustu árin er það nú orðið sýnilegt.

Gatið er á stjórnborðssíðu skipsins og var bæði yfir og undir sjávarhæð á síðu ferjunnar. Þeir sérfræðingar sem þáttagerðarmennirnir ræddu við sögðu að flest benti til að utanaðkomandi kraftur hafi valdið gatinu. 

Þáttagerðarmennirnir höfðu sent kafbát niður að flakinu í óleyfi yfirvalda, en ekkert var minnst á gatið í skýrslu rannsóknarnefndar um slysið sem birt var árið 1997.

Stjórnvöld í Svíþjóð, Finnlandi og Eistlandi hafa átt í samráði að undanförnu um hvernig sé best að standa að frekari rannsóknum. Damberg telur að skamman tíma ætti að taka að ná samkomulagi um nauðsynlegar lagabreytingar til að hægt sé að ráðast í frekari rannsóknir.


Tengdar fréttir

Fyrr­verandi ráð­herra hafnar kaf­báts­kenningu

Fyrrverandi varnarmálaráðherra Svíþjóðar hefur hafnað þeirri kenningu eistnesks saksóknara og rannsakanda að orsök þess að ferjan Estonia hafi sokkið, óveðursnóttina 1994, hafi verið árekstur við sænskan kafbát.

Sakar Svía um lygar og telur líklegt að Estonia hafi sokkið eftir árekstur við kafbát

Magnus Kurm, fyrrverandi saksóknari í Eistlandi og maðurinn sem leiddi seinni rannsókn eisneskra yfirvalda á Estonia-sjóslysinu sakar Svía um að hafa logið að Eistum við rannsóknina á því hvað orsakaði sjóslysið mannskæða. Hann telur líklegt að árekstur við kafbát hafi orsakað það að Estonia sökk í óveðri aðfaranótt 28. september árið 1994.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.