Erlent

Segja ný­upp­götvað gat á síðu skrokks Estonia varpa nýju ljósi á harm­leikinn

Atli Ísleifsson skrifar
Rannsóknarnefnd komst að þeirri niðurstöðu að illa farin stafnhurðin hafi losnað í óveðrinu sem hafi valdið því að mikið magn sjávar flæddi inn í ferjuna með þeim afleiðingum að hún sökk.
Rannsóknarnefnd komst að þeirri niðurstöðu að illa farin stafnhurðin hafi losnað í óveðrinu sem hafi valdið því að mikið magn sjávar flæddi inn í ferjuna með þeim afleiðingum að hún sökk. EPA

Sænskir heimildargerðarmenn hafa fundið fjögurra metra langt gat á síðu skrokks ferjunnar Estonia sem hvílir nú á hafsbotni í Eystrasalti eftir að hafa sokkið í óveðri aðfaranótt 28. september árið 1994. Alls fórust 852 manns þegar skipið sökk.

Heimildarþættirnir Estonia – uppgötvunin sem öllu breytir, eru frumsýndir á Dplay í dag þar sem harmleikurinn er til umfjöllunar.

Þáttagerðarmennirnir hafa notast við köfunarvélmenni sem myndaði skrokk skipsins á hafsbotni. Á myndunum, sem hafa verið birtar á vef Aftonbladet, má sjá gatið á síðunni sem hefur áður snúið niður og ekki verið sýnilegt. Skrokkurinn hefur hins vegar með árunum verið á hreyfingu og því hefur stjórnborðssíða skrokksins nú orðið sýnilegri.

Í frétt blaðsins segir að gatið, sem er fjórir metrar á hæð og 1,2 metrar þar sem það er breiðast, sé að finna á stjórnborðssíðu skipsins og hafi verið bæði yfir og undir sjávarhæð á síðu ferjunnar.

Utanaðkomandi kraftur

Þeir sérfræðingar sem þáttagerðarmennirnir ræða við útiloka að sprenging hafi valdið umræddu gati, og segja að þess í stað bendi flest til að það sé utanaðkomandi kraftur sem hafi valdið gatinu.

Þáttagerðarmennirnir segja uppgötvunina styðja við bakið á þeirri kenningu að skýringuna á því að skipið hafi sokkið sé ekki einungis að finna í að stafnhurð ferjunnar hafi losnað líkt og niðurstaða rannsóknarnefndar sænskra, finnskra og eistneskra yfirvalda sagði til um. Umrætt gat kunni einnig að skýra að ferjan hafi sokkið svo fljótt og raun bar vitni.

Ferjan Estonia var leið frá eistnesku höfuðborginni Tallinn til sænsku höfuðborgarinnar Stokkhólms þegar hún sökk innan finnskrar lögsögu. Alls voru um þúsund manns um borð – 137 manns komust lífs af, en 852 fórust.GEtty

Ferjan Estonia var leið frá eistnesku höfuðborginni Tallinn til sænsku höfuðborgarinnar Stokkhólms þegar hún sökk innan finnskrar lögsögu. Alls voru um þúsund manns um borð – 137 manns komust lífs af, en 852 fórust.

Hafa ekki sætt sig við niðurstöðu nefndarinnar

Í frétt Aftonbladet segir að einhverjir þeirra sem komust lífs af úr slysinu hafi aldrei getað sætt sig við niðurstöðu rannsóknarnefndarinnar – það er að illa farin stafnhurðin hafi losnað í óveðrinu sem hafi valdið því að mikið magn sjávar flæddi inn í ferjuna með þeim afleiðingum að hún sökk. Segja þeir skýringuna ekki koma heim og saman við upplifun eftirlifenda. Eistnesk stjórnvöld hafa nú krafist að ráðist verði í nýja rannsókn.

Heimildargerðarmennirnir hafa verið ákærðir fyrir röskun á grafhelgi vegna upptaka sinna.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×