Erlent

Kjörmenn í barátturíkjum greiða Biden atkvæði sín

Samúel Karl Ólason skrifar
Þegar kjörmenn ríkja Bandaríkjanna ljúka atkvæðagreiðslum sínum í kvöld er útlit fyrir að Biden verði með 306 kjörmenn og Trump 232.
Þegar kjörmenn ríkja Bandaríkjanna ljúka atkvæðagreiðslum sínum í kvöld er útlit fyrir að Biden verði með 306 kjörmenn og Trump 232. AP/Susan Walsh

Kjörmenn í þeim sex ríkjum Bandaríkjanna sem Donald Trump, forseti, hefur reynt að snúa við niðurstöðum kosninganna í síðasta mánuði hafa veitt Joe Biden atkvæði þeirra. Þar með er í raun búið að tryggja sigur Bidens í kosningunum.

Umrædd sex ríki eru Nevada, Arizona, Georgía, Pennsylvanía, Wisconsin og Michigan.

Þegar kjörmenn ríkja Bandaríkjanna ljúka atkvæðagreiðslum sínum í kvöld er útlit fyrir að Biden verði með 306 kjörmenn og Trump 232. Niðurstöður kosninganna sjálfra voru á þann veg að Biden fékk 81,3 milljónir atkvæða og Trump 74,2 milljónir.

Trump gefur þó í skyn að hann ætli að halda áfram að draga úrslit kosninganna í efa en hann og bandamenn hans hafa höfðað fjölda dómsmála í þessum ríkjum. Sú viðleitni hefur þó engan árangur borið og hefur málunum ítrekað verið vísað frá dómi.

Nú um helgina vísaði Hæstiréttur Bandaríkjanna kröfu ríkissaksóknara Texas og annarra ríkja þar sem Repúblikanar eru við völd um að ógilda úrslit kosninganna í Georgíu, Michigan, Pennsylvaníu og Wisconsin. Sú lögsókn var studd af Trump.

Enn eitt málið var svo höfðað í Nýju Mexíkó í dag. Það eru þó nokkrar klukkustundir síðan kjörmenn ríkissins veittu Biden atkvæði þeirra.

Trump-liðar, og forsetinn sjálfur, halda því fram að hann hafi í raun unnið kosningarnar. Umfangsmikið kosningasvindl hafi kostað hann opinberan sigur. Þeir hafa þó ekki fært trúverðugar sannanir fyrir svindli á þeim skala að það myndi snúa niðurstöðunum.

Öryggisgæsla var aukin víða vegna atkvæðagreiðslu kjörmanna og í Arizona var atkvæðagreiðslan til að mynda haldin á leynilegum stað.

Í Michigan sagði einn ríkisþingmaður Repúblikanaflokksins í dag að hann og aðrir myndum mögulega reyna að stöðva atkvæðagreiðsluna. Hann sagðist ekki útiloka að beita ofbeldi. Leiðtogar Repúblikana í þinginu gripu þau í taumana. Þeir fordæmdu ummæli þingmannsins og vísuðu honum úr öllum nefndum, samkvæmt frétt Washington Post.

Kjörmenn Repúblikanaflokksins reyndu þó að komast inn í þinghúsið, til að trufla atkvæðagreiðslu kjörmanna Demókrataflokksins. Lögregluþjónar meinuðu þeim inngöngu.


Tengdar fréttir

27 af 249 þingmönnum Repúblikana viðurkenna sigur Bidens

Aðeins 27 þingmenn Repúblikana viðurkenna sigur Joes Biden í forsetakosningunum í Bandaríkjunni mánuði eftir sigur hans. Biden fékk sjö milljónum fleiri atkvæði á landsvísu en Donald Trump forseti og jafnmarga kjörmenn og tryggðu Trump sigur í kosningunum árið 2016. Biden hlaut 306 kjörmenn gegn 232 kjörmönnum Trump. Washington Post greinir frá þessu.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.