Erlent

Hæstiréttur féllst ekki á að ógilda úrslitin

Sylvía Hall skrifar
Trump segir niðurstöðu réttarins vonbrigði. Hæstiréttur hafi brugðist.
Trump segir niðurstöðu réttarins vonbrigði. Hæstiréttur hafi brugðist. Getty/Al drago

Hæstiréttur Bandaríkjanna hefur vísað frá kröfu Texas-ríkis um ógildingu úrslita í fjórum ríkjum Bandaríkjanna í forsetakosningunum sem fram fóru í nóvember. Taldi rétturinn að ríkið hefði ekki sýnt fram á lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins.

Lögsóknin snerist um úrslit kosninganna í Georgíu, Michigan, Pennsylvaníu og Wisconsin og var studd af Donald Trump, fráfarandi Bandaríkjaforseta. Sjálfur hafði hann kallað málið „það stóra“ og vonaðist til að Hæstiréttur myndi fallast á kröfuna, með þeim afleiðingum að Biden myndi missa meirihluta sinn og tryggja þannig áframhaldandi embættissetu Trumps.

Í úrskurði Hæstaréttar segir að það sé ekki réttur Texas-ríkis að lögsækja ríkin, enda hefði ekki verið sýnt fram á lögvarða hagsmuni af því að fá niðurstöðu um hvernig önnur ríki Bandaríkjanna framkvæma kosningar að því er fram kemur í frétt AP.

Trump lýsti yfir miklum vonbrigðum á Twitter-síðu sinni og sagði Hæstarétt hafa brugðist. „Engin viska, ekkert hugrekki,“ skrifaði hann eftir að niðurstaða var ljós.

Sjálfur hefur Trump skipað þrjá Hæstaréttardómara í forsetatíð sinni. Fyrst Neil Gorsuch árið 2017, Brett Kavanaugh árið 2018 og síðast Amy Coney Barrett í september á þessu ári eftir að Ruth Bader Ginsburg lést í september. Meirihluti réttarins var því nú á íhaldssamari væng stjórnmálanna, eða sex af níu.

Enginn þeirra dómara sem Trump skipaði hefur skilað sératkvæði í málum sem snúa að kosningunum, en tvö mál hafa komið til kasta dómstólsins í vikunni með litlum árangri fyrir repúblikana.

Trump segir málinu hafa verið „kastað frá“ án þess að dómurinn hafi svo mikið sem litið á þær „fjölmörgu ástæður“ sem færðar voru fram.


Tengdar fréttir

27 af 249 þingmönnum Repúblikana viðurkenna sigur Bidens

Aðeins 27 þingmenn Repúblikana viðurkenna sigur Joes Biden í forsetakosningunum í Bandaríkjunni mánuði eftir sigur hans. Biden fékk sjö milljónum fleiri atkvæði á landsvísu en Donald Trump forseti og jafnmarga kjörmenn og tryggðu Trump sigur í kosningunum árið 2016. Biden hlaut 306 kjörmenn gegn 232 kjörmönnum Trump. Washington Post greinir frá þessu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×