Erlent

Þingmenn sjá ekki hag í því að standa upp í hárinu á Trump

Samúel Karl Ólason skrifar
Sérfræðingar, Demókratar og einhverjir Repúblikanar vara við því að ummæli Trumps og áróður hans um kosningarnar muni valda lýðræði Bandaríkjanna langvarandi skaða.
Sérfræðingar, Demókratar og einhverjir Repúblikanar vara við því að ummæli Trumps og áróður hans um kosningarnar muni valda lýðræði Bandaríkjanna langvarandi skaða. AP/Evan Vucci

Leiðtogar Repúblikanaflokksins ætla sér ekki að viðurkenna sigur Joe Bidens í forsetakosningunum fyrr en í næsta mánuði og jafnvel ekki fyrr en eftir að hann tekur embætti.

Þingmenn flokksins eru nú byrjaðir að tala um að 6. janúar, þegar þingmenn greiða atkvæði um niðurstöðu kjörmannakerfis forsetakosninga í Bandaríkjunum, sé dagurinn sem muni marka sigur Bidens. Mitch McConnell, forseti öldungadeildar Bandaríkjaþings, hefur gefið í skyn að hann muni ekki viðurkenna sigur Bidens fyrr en þann 20. janúar, þegar embættistaka Bidens fer fram.

Gærdagurinn markaði tímamót þar sem frestur ríkja til að staðfesta niðurstöður kosninganna rann út og þar að auki hafnaði Hæstiréttur Bandaríkjanna beiðni um að yfirvöld í Pennsylvaníu staðfestu ekki sigur Bidens.

Samkvæmt AP fréttaveitunni draga þingmenn lappirnar í þessum málum í viðleitni þeirra vegna spurninga og gagnrýni frá kjósendum þeirra sem kusu Trump og neita að trúa því að hann hafi tapað kosningunum á umfangsmikils kosningasvindls.

Óttast afleiðingar þess að fara gegn Trump

Þeir telja það ekki borga sig fyrir þá að standa upp í hárinu á Trump því stuðningsmenn hans, og kjósendur þeirra, myndu líklegast refsa þeim. Þá treysta þeir á stuðningsmenn Trumps fyrir aukakosningarnar í Georgíu, sem geta tryggt Repúblikönum meirihluta í öldungadeild Bandaríkjaþings næstu tvö árin.

Einn þingmaður flokksins, sem heitir Alex Mooney, sagði fréttaveitunni að hann hefði orðið fyrir þrýstingi frá kjósendum í heimaríki sínu í Vestur Virginíu og aðgerðasinnum innan Repúblikanaflokksins. Hann sagði kjósendur Repúblikanaflokksins hafa verulegar áhyggjur af því að Repúblikanar stæðu ekki nægilega þétt við bakið á forsetanum fráfarandi í viðleitni hans til að snúa niðurstöðum kosninganna.

Mooney lagði nýverið fram tillögu að þingsályktun þar sem bæði Trump og Biden eru hvattir til að viðurkenna ekki ósigur fyrr en öllum rannsóknum sem að kosningunum snúa eru yfirstaðnar.

Áróðurinn sagður skaða lýðræðið

Sérfræðingar, Demókratar og einhverjir Repúblikanar vara þó við því að ummæli Trumps og áróður hans um kosningarnar muni valda lýðræði Bandaríkjanna langvarandi skaða. Þá sérstaklega þegar kemur að trú kjósenda á það að kosningakerfið virki.

Trump-liðum hefur ekki tekist að sýna fram á að umfangsmikið kosningasvik hafi í raun átt sér stað. Forsetinn og bandamenn hans hafa höfðað tugi mála vegna kosninganna en ekkert þeirra hefur skilað raunverulegum árangri.

Embættismenn og meðlimir kjörstjórna í ríkjum þar sem Trump heldur því fram að svindlað hafi verið á honum segja engin ummerki um kosningasvindl af slíkri stærðargráðu að það gæti snúið niðurstöðum kosninganna.

William Barr, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, lét embættismenn sína rannsaka einhverjar af ásökunum Trump-liða. Þeir fundu engar sannanir fyrir þeim umfangsmiklu kosningasvikum sem forsetinn segir að hafa kostað sig sigur í kosningunum í síðasta mánuði.

Trump og stuðningsmenn hans hafa brugðist reiðir við og hafa jafnvel haldið því fram að Barr, sem hefur verið mikill stuðningsmaður Trumps, tilheyri djúpríkinu svokallaða, sem Trump á að hafa barist gegn í forsetatíð sinni.

Geoff Duncan, aðstoðarríkisstjóri Georgíu, varaði fyrr í vikunni við því að áframhaldandi viðleitni Repbúblikana við að draga niðurstöður kosninganna í efa, myndi koma niður á flokknum til lengri tíma.

Hann sagði að flokkurinn ætti að einbeita sér að kosningunum í Georgíu.

Þessi ummæli féllu ekki í kramið í Hvíta húsinu og tísti Trump ítrekað um Duncan á mánudagskvöldið. Trump kallaði hann meðal annars heimskan og spilltan og sagði mikilvægt að íbúar Georgíu létu Duncan heyra það.

Trump hefur gagnrýnt embættismenn í Georgíu harðlega að undanförnu. Í síðustu viku steig einn þeirra fram og gagnrýndi Trump harðlega fyrir ummæli sín og sagði forsetann ógna lífum.

New York Times segir að áróður Trump-liða og afstaða Repúblikana hafi leitt til sífellt meiri reiði meðal stuðningsmanna forsetans. Þeir séu margir sannfærðir um að svindlað hafi verið á Trump og hafa ítrekað sent embættismönnum og kjörnum fulltrúum í ríkjum þar sem Biden sigraði hótanir.

Nokkrir ríkisþingmenn lýstu þeim hótunum sem þeim hafa borist í samtali við miðilinn. Þar á meðal voru morðhótanir og einn þingmaður frá Michigan sagði foreldrum sínum einnig hafa borist hótanir.

Ann Jacobs, formaður yfirkjörstjórnar Wisconsin, sagði frá því að stuðningsmenn Trumps hafi dreift myndum af heimili hennar á netinu og jafnvel sent henni hótanir þar sem börnin hennar voru nefnd.


Tengdar fréttir

27 af 249 þingmönnum Repúblikana viðurkenna sigur Bidens

Aðeins 27 þingmenn Repúblikana viðurkenna sigur Joes Biden í forsetakosningunum í Bandaríkjunni mánuði eftir sigur hans. Biden fékk sjö milljónum fleiri atkvæði á landsvísu en Donald Trump forseti og jafnmarga kjörmenn og tryggðu Trump sigur í kosningunum árið 2016. Biden hlaut 306 kjörmenn gegn 232 kjörmönnum Trump. Washington Post greinir frá þessu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×