Enski boltinn

Vonast til að De Gea geti mætt PSG

Sindri Sverrisson skrifar
David de Gea fær aðhlynningu eftir að hafa meiðst gegn Southampton í gær.
David de Gea fær aðhlynningu eftir að hafa meiðst gegn Southampton í gær. Getty/Mike Hewitt

Ole Gunnar Solskjær vonast til þess að spænski markmaðurinn David de Gea verði búinn að jafna sig fyrir stórleik Manchester United við PSG í Meistaradeild Evrópu á miðvikudagskvöld.

De Gea fór meiddur af velli eftir fyrri hálfleik í leik United við Southampton í gær. Þá var staðan 2-0 fyrir Southampton. Lítið reyndi á Dean Henderson sem stóð í markinu í seinni hálfleik þegar United sneri leiknum sér í vil og vann 3-2.

De Gea skall með vinstra hnéð í stöngina þegar hann reyndi að verjast aukaspyrnu James Ward-Prowse, þegar Southampton komst í 2-0. Solskjær var spurður út í meiðslin eftir leik:

„Við skulum fara með De Gea í smávægilega skönnun eða skoðun. Vonandi verður hann í lagi á miðvikudaginn en ég er ekki viss,“ sagði knattspyrnustjórinn.

„Dean spilaði samt vel. Hann er markmaður sem er vanur því að láta í sér heyra. Hann vill skipuleggja liðið. Hann þurfti ekki að taka á honum stóra sínum í markvörslunum en sýndi öryggi í höndunum,“ sagði Solskjær.

Þetta var fyrsti leikur Hendersons fyrir Manchester United í ensku úrvalsdeildinni. Áður hafði hann spilað í deildabikarnum og Meistaradeild Evrópu á þessari leiktíð, eftir að hafa verið að láni hjá Sheffield United síðustu tvö ár og þótt standa sig vel í úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð.

Spurður út í orðróm þess efnis að Henderson færi að láni í janúar sagði Solskjær í síðustu viku að enski markmaðurinn „vildi vera áfram hjá Manchester United“. Henderson berst fyrir sæti sínu í enska landsliðshópnum sem fer á EM næsta sumar.

Meistaradeild Evrópu er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Meistaradeildin er hluti af Stöð 2 Sport Erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.


Tengdar fréttir

Vara­maðurinn Ca­vani lykillinn að endurkomu United

Manchester United virðist hafa fundið upp tímavél en liðið kom til baka eftir að hafa lent 2-0 undir gegn Southampton í ensku úrvalsdeildinni í dag. Lokatölur 3-2 þökk sé ótrúlegri innkomu Edinson Cavani.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×