Erlent

Fox semur við foreldra Seth Rich

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá höfuðstöðvum Fox News í New York.
Frá höfuðstöðvum Fox News í New York. AP/Richard Drew

Fox News hefur gert dómsátt við Mary og Joel Rich, foreldra Seth Rich sem var myrtur árið 2016. Þau höfðuðu mál gegn fréttastofunni vegna umfjöllunar þar sem morð hans var tengt við tölvuárás á Landsnefnd Demókrataflokksins í aðdraganda forsetakosninganna 2016. Í yfirlýsingu segjast hjónin nú geta haldið lífi þeirra áfram og segjast þau sátt við sáttina, ef svo má að orði komast.

Ekki hefur verið opinberað hvað þessi sátt felur í sér.

Seth Rich var skotinn til bana í júlí 2016 nærri heimili hans í Washington. Morðið er enn óleyst en lögreglan telur að um misheppnaða ránstilraun hafi verið að ræða.

Í maí 2017 var birt grein á vef Fox News sem byggði á ónafngreindum heimildarmönnum og einkaspæjara sem segir rangt eftir sér haft og var gefið í skyn að Rich, sem starfaði fyrir Landsnefnd Demókrataflokksins, hafi verið myrtur fyrir að leka tölvupóstum úr tölvukerfi Landsnefndarinnar til Wikileaks. Meðal annars fjallaði Sean Hannity, einn þáttastjórnenda Fox, ítrekað um þessa samsæriskenningu.

Tölvuþrjótar á vegum leyniþjónustu herafla Rússlands, GRU, stálu tölvupóstunum úr tölvukerfi Landsnefndarinnar, samkvæmt sérfræðingum sem hafa rannsakað málið og leyniþjónustusamfélagi Bandaríkjanna.

Tekin úr birtingu viku seinna

Fréttin var tekin úr birtingu viku seinna og í yfirlýsingu frá Fox sagði að hún hefði ekki staðist staðla fréttastofunnar. Alríkislögregla Bandaríkjanna, FBI, hafði þá gefið út að rannsakendur á vegum embættisins hefðu ekki komið að rannsókninni á morði Rich og því hafi engin skýrsla um málið verið skrifuð þar, eins og haldið var fram í fréttinni.

Þar að auki sagði einkaspæjarinn Rod Wheeler að blaðamaður Fox hefði logið upp á sig ummælum um að hann hefði sannanir fyrir tölvupóstssamskiptum Rich við Wikileaks.

Mary og Joel sögðu Fox og segja aðra hafa notað dauða sonar þeirra í pólitískum tilgangi. Það hafi ýtt undir samsæriskenningar um morð hans og valdið þeim miklum tilfinningalegum skaða.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×