Enski boltinn

Fyrrum stjóri Tottenham telur liðið hæglega geta unnið deildina

Ísak Hallmundarson skrifar
Mourinho gleðst með leikmönnum sínum á góðum degi.
Mourinho gleðst með leikmönnum sínum á góðum degi. getty/Catherine Ivill

Tottenham Hotspur trónir á toppnum í ensku úrvalsdeildinni þegar níu umferðir eru búnar. Liðið hefur hinsvegar ekki unnið Englandsmeistaratitil síðan árið 1961 og ekki unnið titil síðan 2008, þegar liðið vann enska deildarbikarinn.

Margir hafa velt því fyrir sér hvort árið í ár sé ár Tottenham. Þeirra á meðal er Tim Sherwood, fyrrum þjálfari liðsins, en hann segir fulla ástæðu til að trúa því að Jose Mourinho geti landað Englandsmeistaratitlinum fyrir Tottenham þetta árið.

„Jose hefur heilaþvegið leikmenn sína til að trúa að þeir séu að vinna að því að afreka eitthvað. Þessi leikmannahópur þarf á titlum að halda.

Af hverju myndiru ekki trúa honum? Hann hefur unnið 20 stóra titla sem þjálfari og er núna að vinna fótboltaleiki. Hann veit hvað hann er að gera, hvers vegna gæti hann ekki unnið deildina?“ sagði Sherwood.

Tottenham er með stjörnum prýtt lið og ber þá helst að nefna Harry Kane og Son Heung-Min, Kane er stoðsendingahæstur í deildinni með tíu stoðsendingar auk þess að hafa sjálfur skorað sjö mörk og Son er næst markahæstur í deildinni með níu mörk.

„Þegar þú ert með leikmenn eins og Son og Kane, sem eru í heimsklassa og gætu spilað í hvaða liði sem er í heiminum, þá áttu alltaf séns,“ sagði Sherwood að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×