Enski boltinn

Rooney vildi fara til Barcelona og segir að hann hefði passað fullkomlega með Messi, Xavi og Iniesta

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Wayne Rooney og Lionel Messi í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu 2011 þar sem Barcelona sigraði Manchester United, 3-1. Rooney og Messi skoruðu báðir í leiknum.
Wayne Rooney og Lionel Messi í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu 2011 þar sem Barcelona sigraði Manchester United, 3-1. Rooney og Messi skoruðu báðir í leiknum. getty/Corbis

Wayne Rooney segir að hann hafi viljað fara til Barcelona þegar hann óskaði eftir því að verða seldur frá Manchester United 2010.

Í hlaðvarpi United sagði Rooney að Real Madrid hefði sýnt sér mikinn áhuga en Barcelona hefði verið draumafélagið. Á þessum tíma var Barcelona undir stjórn Peps Guardiola og Rooney segir að hann hefði passað vel inn í liðið með leikmönnum á borð við Lionel Messi, Xavi og Andrés Iniesta.

„Á þessum tíma var ég tilbúinn að fara og spila á Spáni. Ég hefði helst viljað fara til Barcelona en Real Madrid var líklegri. Chelsea var einnig inni í myndinni,“ sagði Rooney.

„Ég man eftir því að hafa hugsað með mér hvernig væri að spila í þessu liði með Messi, Xavi og Iniesta. Á þessum tíma var Messi ekki að spila þar sem hann spilar núna heldur úti á kanti. Ég hefði passað fullkomlega inn í liðið.“

Þrátt fyrir áhuga annarra liða endaði Rooney á að skrifa undir nýjan fimm ára samning við United haustið 2010. Hann lék með United til 2017 og er markahæsti leikmaður í sögu félagsins.

United og Barcelona mættust í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu undir lok tímabilsins 2010-11 þar Börsungar höfðu sigur, 3-1. Rooney skoraði mark United.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.