Íslenski boltinn

Yfirmaður knattspyrnusviðs kemur ekki að ráðningu nýs landsliðsþjálfara

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Arnar Þór Viðarsson er þjálfari U-21 árs landsliðs karla og er búinn að koma því á EM á næsta ári.
Arnar Þór Viðarsson er þjálfari U-21 árs landsliðs karla og er búinn að koma því á EM á næsta ári. vísir/vilhelm

Arnar Þór Viðarsson, yfirmaður knattspyrnusviðs hjá Knattspyrnusambandi Íslands og þjálfari U-21 árs landsliðs karla, segir að hann muni ekki koma að ráðningu nýs þjálfara A-landsliðs karla. Það starf er laust eftir að Erik Hamrén hætti eftir leikinn gegn Englandi í síðustu viku.

Arnar Þór var í viðtali í útvarpsþættinum Fótbolta.net á laugardaginn. Þar var hann spurður að því hvort hann kæmi eitthvað að ráðningu næsta þjálfara A-landsliðs karla.

„Það er ekki í prótókólnum. Þegar við settum saman starfið, yfirmaður knattspyrnusviðs, þótti okkur mjög óeðlilegt ef ég er þjálfari U-21 árs liðsins og að ákveða hver kemur inn eða þurfa að reka einhvern. Það er óþægilegt fyrir A-landsliðsþjálfara að vera með yfirmann knattspyrnumála yfir sér og sami maður er eiginlega undir honum. Það væri ekki holl staða,“ sagði Arnar Þór.

„En það sem er á mínu sviði er að ræða málin við stjórn KSÍ og Guðna [Bergsson, formann KSÍ] og Klöru [Bjartmarz, framkvæmdastjóra KSÍ] hvernig er best fyrir okkur að stýra öllu batteríinu næstu árin.“

Hægt að vera yfirmaður knattspyrnusviðs og landsliðsþjálfari

Í þættinum játaði Arnar Þór að hann hefði áhuga á að taka við A-landsliðinu, líkt og sennilega allir þjálfarar á Íslandi. Hann sagði að það væri hægt að gegna báðum störfum, vera yfirmaður knattspyrnusviðs og A-landsliðsþjálfari.

„Já, það held ég, eða ég veit það. Roberto Martínez gerir það hjá Belgíu. Þeir ætluðu að ráða inn yfirmann knattspyrnumála en hættu við því þeir voru svo ánægðir með þetta tvöfalda starf, hvernig Martínez er að gera þetta. Ef þetta er hægt einhvers staðar annars staðar ætti það að vera hægt á Íslandi líka,“ sagði Arnar Þór.

Hann er fullviss um að hann geti gegnt báðum störfum, þjálfari A-landsliðsins og yfirmaður knattspyrnusviðs, ef til þess kemur.

„Það er ljóst í mínum huga að það er hægt. Við erum auðvitað að hlaupa aðeins á undan okkur en ef þessi staða kemur upp er ég hundrað prósent öruggur á því að þetta sé hægt og ég geti sinnt þessu starfi, enda myndi ég ekki vilja gera það á neinn annan hátt vegna þess að það starf sem ég hef verið að gera í samstarfi við alla á knattspyrnusviði KSÍ undanfarið eitt og hálft ár er ekkert búið. Við erum rétt að byrja. Við erum búin að framkvæma fullt af flottum hlutum en það er fullt á teikniborðinu,,“ sagði Arnar Þór.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.