Enski boltinn

Manchester City sagt búið að missa áhugann á Messi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lionel Messi er ekki að skila sömu tölum og áður og Barca er bara í tólfta sæti í spænsku deildinni.
Lionel Messi er ekki að skila sömu tölum og áður og Barca er bara í tólfta sæti í spænsku deildinni. EPA-EFE/Alejandro Garcia

Lionel Messi er ekki á leiðinni til Manchestet City í sumar eins og margir voru búnir að spá. Sky Sports slær því upp hjá sér að enska félagið sé búið að missa áhugann á argentínska snillingnum.

Lionel Messi er fæddur í júní 1987 og yrði því orðinn 34 ára gamall þegar hann mætti á æfingasvæðið hjá City næsta sumar.

Aldur hans og launakröfur eru það sem fælir Manchester City frá samkvæmt heimildum Semra Hunter sem er sérfræðingur Sky Sports í spænska boltanum.

Lionel Messi klárar samning sinn við Barcelona næsta sumar og hann mætti byrja að ræða við önnur félög strax í janúar.

Pep Guardiola var að framlengja samning sinn sem knattspyrnustjóri Manchester City til 2023 og það þótti sumum bara auka líkurnar að Messi kæmi.

Samingur Pep Guardiola var undirritaður í síðustu viku en á fyrsta blaðamannafundinum á eftir þá talaði Pep hins vegar að hann vildi að Messi myndi klára feril sinn hjá Barcelona.

Sky Sport slær síðan því upp í gær að Manchester City hafi ekki lengur áhuga á Messi. Málin eru því að þróast í þveröfuga átt en flestir héldu.

Það er ljóst að launakröfur Messi eru að flæjast fyrir forráðamönnum Manchester City en Argentínumaðurinn fær hundrað milljón evra í árslaun eða sextán milljarða íslenskra króna. Messi er sem sagt að fá yfir milljarð á mánuði í laun og geri aðrir betur.

Þá er frammistaða kappans ekki að ýta undir áhugann. Lionel Messi hefur aðeins skorað tvö mörk í síðustu sjö leikjum sínum í spænsku deildinni og hefur aðeins gefið eina stoðsendingu í þessum sömu sjö leikjum.

Messi hefur reyndar skorað í öllum þremur leikjum Barcelona í Meistaradeildinni sem hafa allir unnist.

Í spænsku deildinni er markaleysi Messi greinilega að hrjá Barca liðið sem hefur aðeins unnið einn af síðustu sex leikjum sínum og situr fyrir vikið í tólfta sæti deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×