Íslenski boltinn

Stóð sig vel á láni hjá Þrótti í sumar og fékk nýjan samning hjá Val

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ólöf Sigríður Kristinsdóttir skoraði fyrstu mörkin sín í Pepsi Max deild kvenna í sumar en þau urðu alls sex.
Ólöf Sigríður Kristinsdóttir skoraði fyrstu mörkin sín í Pepsi Max deild kvenna í sumar en þau urðu alls sex. S2 Sport

Framherjinn efnilegi Ólöf Sigríður Kristinsdóttir hefur framlengt samning sinn við Val.

Valsmenn segja frá því á miðlum sínum að Olla, eins og hún er jafnan kölluð, hafi endurnýjað samning sinn við Val.

Ólöf Sigríður er uppalin hjá Val og lék sinn fyrsta meistaraflokksleik fyrir félagið árið 2018.

Hún fór á láni til nýliða Þróttar í sumar og stóð sig frábærlega.

Ólöf Sigríður var með 6 mörk og 1 stoðsendingu í fjórtán leikjum með Þrótti og átti mikinn þátt í því að liðið hélt sér upp í Pepsi Max deildinni.

Ólöf skoraði meðal annars þrennu í 5-5 jafntefli við Stjörnuna og skoraði bæði í sigurleikjum á móti Fylki og KR sem og í jafntefli á móti KR. Þróttur fékk því stig í öllum fjórum leikjunum þar sem Ólöf var á skotskónum.

Ólöf Sigríður Kristinsdóttir hefur aðeins spilað einn leik með Val í Pepsi Max deild kvenna en í fyrrasumar var hún lánuð til B-deildarliðs ÍA.

Nú er að sjá hvort að frábær frammistaða hennar með Þrótti í sumar tryggi henni fleiri mínútur með uppeldisfélaginu sínu á næstu leiktíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×