Erlent

Endur­talning at­kvæða í Georgíu stað­festi sigur Bidens

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Joe Biden, verðandi forseti Bandaríkjanna.
Joe Biden, verðandi forseti Bandaríkjanna. Getty/Joe Raedle

Joe Biden, verðandi forseti Bandaríkjanna, fór með sigur af hólmi í Georgíu í forsetakosningunum sem fram fóru fyrr í mánuðinum. Þetta var staðfest eftir að endurtalningu atkvæða lauk í nótt.

Biden hafði betur gegn sitjandi forseta, Donald Trump, en afar mjótt var á munum; aðeins 12.284 atkvæði skilja frambjóðendurna að í ríkinu. Endurtalningin leiddi jafnframt í ljós að engin brögð voru í tafli, ekkert kosningasvindl, eins og Trump hefur haldið fram.

Sigur Bidens í Georgíu er sögulegur en hann er fyrsti frambjóðandi Demókrata síðan 1992 til að þess að vinna í ríkinu.

Að því er fram kemur í frétt BBC hefur Biden nú fengið 5,9 milljón atkvæðum meira en Trump á landsvísu. Þá er hann með 306 kjörmenn gegn 232 kjörmönnum Trumps en til þess að tryggja sér forsetaembættið þarf að ná 270 kjörmönnum.

Framboð Trumps fór fram á endurtalninguna þar sem svo mjótt var á munum og féllust yfirvöld í Georgíu strax á það.

Endurtalningin var umfangsmikil þar sem öll atkvæði voru handtalin. Brad Raffensberger, innanríkisráðherra Georgíu og Repúblikani, hafði áður sagt að hann teldi ólíklegt að endurtalningin myndi breyta úrslitunum.

„Þessi fyrsta og þar með sögulega endurtalning í ríkinu staðfestir að nýtt og öruggt pappírsatkvæðakerfi ríkisins taldi atkvæði rétt og sýndi réttar niðurstöður,“ sagði Raffensberger í nótt þegar niðurstöður endurtalningarinnar lágu fyrir.

Jenna Ellis, aðallögfræðingur kosningateymis Trumps, sagði að endurtalning hefði farið nákvæmlega eins og þau bjuggust við. Fullyrti hún, án þess að færa fyrir því nokkrar sannanir, að ólögleg atkvæði hefðu verið endurtalin. Þá hefur Trump ekki enn viðurkennt ósigur.

Fréttin hefur verið uppfærð.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.