Erlent

Geimfararnir komnir að Alþjóðlegu geimstöðinni

Kjartan Kjartansson skrifar
Dragon-geimferja SpaceX leggst að Alþjóðlegu geimstöðinni í nótt.
Dragon-geimferja SpaceX leggst að Alþjóðlegu geimstöðinni í nótt. AP/sjónvarpsstöð NASA

Geimferja SpaceX með fjóra geimfara innanborðs lagði að Alþjóðlegu geimstöðinni á braut um jörðu í nótt. Þetta var fyrsta reglulega ferð einkarekna geimferðafyrirtækisins með geimfara til geimstöðvarinnar.

„En hvað þetta er góð rödd að heyra í. Við getum ekki beðið eftir að fá ykkur um borð,“ sagði Kate Rubins, geimfari um borð í geimstöðinni þegar Mike Hopkins, stjórnandi Dragon-geimferjunnar, hafði samband um talstöð þegar ferjan tengdist geimstöðinni, að sögn AP-fréttastofunnar.

Ferðin í geimstöðina tók rúmar 27 klukkustundir en geimferjunni var skotið á loft á aðfaranótt mánudags. Geimfararnir fjórir eiga að dvelja um borð í geimstöðinni næsta hálfa árið.

Þetta var aðeins í annað skiptið sem SpaceX skaut mönnum á loft með geimferju sinni. Fyrsta tilraunaflugið var með tvo bandaríska geimfara sem fóru til geimstöðvarinnar í tvo mánuði í maí. Ferðin nú er fyrsta reglulega ferð SpaceX með geimfara og farm til geimstöðvarinnar fyrir bandarísku geimvísindastofnunina NASA. SpaceX og Boeing eru með samning við NASA um að smíða geimferjur og halda úti ferðum til og frá geimstöðvarinnar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×