Erlent

Segir Repúblikana þrýsta á sig til að útiloka lögleg atkvæði í Georgíu

Samúel Karl Ólason skrifar
Brad Raffensperger, innanríkisráðherra Georgíu, er verulega ósáttur við flokksbræður sína og áróður þeirra í tengslum við forsetakosningarnar.
Brad Raffensperger, innanríkisráðherra Georgíu, er verulega ósáttur við flokksbræður sína og áróður þeirra í tengslum við forsetakosningarnar. AP/Brynn Anderson

Brad Raffensperger, innanríkisráðherra Georgíu í Bandaríkjunum, segir að aðrir Repúblikanar hafi beitt hann miklum þrýstingi að undanförnu. Markmiðið sé að láta hann finna leiðir til að útiloka lögleg atkvæði frá talningu með því markmiði að snúa við naumu tapi Donald Trumps, forseta, í ríkinu.

Joe Biden vann ríkið með um 14 þúsund atkvæðum eftir fyrstu talningu. Verið er að fara yfir þær niðurstöður aftur.

Sjá einnig: Ætla að telja öll atkvæði Georgíu aftur

Raffensperger segir að meðal annars hafi bæði hann og eiginkona hans fengið morðhótanir. Ein þeirra í skilaboðum sem í stóð: „Það er eins gott að þú klúðrir ekki þessari endurtalningu. Líf þitt veltur á því.“

Í viðtali við Washington Post segir Raffensperger að meðal þeirra sem hafi beitt hann þrýstingi séu Lindsey Graham, öldungadeildarþingmaður og dyggur stuðningsmaður Trumps, og þingmaðurinn Doug Collins, sem virðist leiða viðleitni Trumps til að sannfæra fólk um að svindlað hafi verið á honum í kosningunum.

Raffensperger kallar Collins „lygara“ og „loddara“ í viðtalinu. Hann hefur sömuleiðis gert það á Facebook.

Collins hefur gagnrýnt Raffensperger harðlega fyrir að styðja ekki ásakanir Repúblikana um kosningasvik betur og segir hann hafa lúffað fyrir Demókrötum.

Innanríkisráðherrann hefur sagt að allar ásakanir um kosningasvik eigi að rannsaka. Nú sé staðan þó sú að engin trúverðug ásökun af því tagi og skala sem hefði áhrif á niðurstöður kosninganna hafi litið dagsins ljós.

Hann segist gramur yfir stöðugum og innihaldslausum ásökunum sem Trump-liðar hafi varpað fram varðandi kosningarnar í Georgíu. Meðal þeirra er sú ásökun um að Dominion Voting Systems, fyrirtæki frá Colorado sem framleiðir kosningavélar, sé vinstri sinnað fyrirtæki með tengsl til Venesúela og að starfsmenn þess hafi gengið úr skugga um að þúsundir atkvæða til Trumps hafi ekki verið talin.

Sjá einnig: Yfirvöld í öllum ríkjum segja kosningarnar hafa farið eðlilega fram

Raffensperger segist sannfærður um að endurtalningin muni leiða í ljós að upprunalegu niðurstöðurnar hafi verið réttar. Nú þegar hafi nokkrar skýrslur skilað niðurstöðum sem séu nákvæmlega þær sömu og síðast.

„Ég er verkfræðingur. Við horfum á tölur. Við horfum á gögn. Ég get ekki gert að því að misheppnaður stjórnmálamaður eins og Doug Collins sé að hlaupa um og ljúga að öllum. Hann er lygari,“ sagði Raffensperger.

Collins gerði misheppnaða tilraun til að ná sæti í öldungadeildinni í nýafstöðnum kosningum. Talsmaður hans vísaði í tíst þingmannsins þegar blaðamaður Washington Post leitaði viðbragða hans.

Í tístinu segir Colins að Raffensperger sé óhæfur í starfi sínu.

Spurði hvort hann gæti komið í veg fyrir talningu atkvæða

Í viðtali við Washington Post segir Raffensperger einnig að Graham hafi hringt í sig á föstudaginn og spurt sig út í lög sem snúa að undirskriftum utankjörfundaratkvæðaseðla. Hvort að pólitískar skoðanir starfsmanna Raffensperger gætu hafa leitt til þess að þeir samþykktu seðla þar sem undirskriftir stemmdu ekki fullkomlega og hvort að hann gæti sem innanríkisráðherra komið í veg fyrir talningu allra slíkra seðla.

Það hefur lengi legið fyrir að kjósendur Demókrataflokksins og Joe Bidens voru líklegri til að greiða atkvæði með utankjörfundaratkvæði og þá líklegast póstatkvæði.

Sjá einnig: Vara við „Rauðri hillingu“ á kjördag

Raffenspergersagði að það hefði komið sér verulega á óvart að Graham hafi virst stinga upp á því að hann kæmi í veg fyrir talningu löglegra atkvæða. Það gæti hann ekki gert án dómsúrskurðar.

„Það leit svo sannarlega út að hann hafi verið að falast eftir því,“ sagði Reffensperger.

Graham segir það ekki hafa verið markmið sitt. Öldungadeildarþingmaðurinn frá Suður-Karólínu hafi eingöngu viljað læra hvernig undirskriftir séu staðfestar.

Trump-liðar hafa höfðað mál og krefjast þess að fá að bera saman undirskriftir á umslögum utankjörfundaratkvæða og kjörseðlum. Reffensperger segir að hann muni alfarið berjast gegn því, þar sem það myndi opinbera hvað tiltekið fólk kaus og leynd atkvæða sé helgur hluti lýðræðislegra kosninga.

Samkvæmt lögum þarf að láta kjósendur vita ef undirskriftir þeirra stemma ekki við þá sem er á skrá hjá hinu opinbera og gefa þeim tækifæri til að leiðrétta villuna. Þessi regla er til komin vegna málaferla Demókrataflokksins varðandi það að póstatkvæðum þeldökkra væri hafnað mun oftar en annarra hópa. Áhugasamir geta lesið útskýringu AP fréttaveitunnar um regluna hér.

Donald Trump tísti nú í kvöld um það að Trump-liðar fengju ekki að skoða undirskriftir kjörseðla og sagði að án þess væri endurtalningin marklaus. Þá gagnrýndi hann það að kjósendum væri gefið tækifæri til að laga undirskriftir sínar og gaf í skyn að það væri ekki í takt við stjórnarskrá Bandaríkjanna.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×