Erlent

Sagður ætla að fækka hermönnum verulega í Afganistan

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald Trump, fráfarandi forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump, fráfarandi forseti Bandaríkjanna. AP/Carolyn Kaster

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, er sagður ætla að fækka bandarískum hermönnum í Afganistan og Írak verulega, áður en hann lætur af embætti í janúar. Samkvæmt fjölmiðlum vestanhafs stendur til að fækka hermönnum í Afganistan um tæpan helming svo það verði 2.500 hermenn eftir þar. Í Írak stendur til að fækka þeim um um það bil 500, svo þar verði einnig 2.500 hermenn eftir.

Trump hefur lengi viljað kalla alla hermennina heim aftur en forsvarsmenn herafla Bandaríkjanna og erindrekar hafa verið andvígir því.

AP fréttaveitan segir ákvörðunina ekki koma á óvart, sérstaklega með miði af því að Trump hafi sópað mörgum leiðtogum úr varnarmálaráðuneytinu og komið stuðningsmönnum sínum þar fyrir í þeirra stað.

Samkvæmt heimildum bandarískra fjölmiðla var forsvarsmönnum hersins tilkynnt þessi ákvörðun um helgina. Enn er ekki búið að semja forsetatilskipun Trump en samkvæmt þeirri áætlun sem liggur fyrir á að klára flutningana einungis fimm dögum áður en Joe Biden sest að í Hvíta húsinu.

Herforingjar hafa lýst því yfir að samningsstaða Bandaríkjanna gagnvart Talibönum, í friðarviðræðum þeirra, gæti versnað með færri hermönnum í Afganistan. Her Írak er betur í stakk búinn til að takast á við ógnir en her Afganistan er til að takast á við Talibana og því hafa herforingjar minni áhyggjur af fækkun hermanna þar.

Um 4.500 bandarískir hermenn eru í Afganistan og varnarmálaráðuneytið hefur sagt erfitt að fækka þeim meira í ljósi ítrekaðra árása Talibana.

Stríðið í Afganistan er það lengsta í sögu Bandaríkjanna og hefur nú staðið yfir í 19 ár. Bandaríkin gerðu innrás í landið eftir árásina á Tvíburaturnana í New York en Talibanar, sem stjórnuðu Afganistan þá, studdu dyggilega við bakið á al-Qaeda á þeim tíma.


Tengdar fréttir

Friðar­við­ræður Afgan­istan og Talí­bana hafnar

Friðarviðræður milli Afganistan og Talíbana hófust í morgun í Katar eftir margra mánaða bið. Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, segir viðræðurnar sögulegar en hann er nú á leið til Doha í Katar til að vera viðstaddur opnunarhátíðar viðræðnanna.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×