Íslenski boltinn

Anna Rakel á leiðinni til Vals úr atvinnumennsku

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Anna Rakel Petursdóttir í leik með íslenska landsliðinu.
Anna Rakel Petursdóttir í leik með íslenska landsliðinu. Getty/Quality Sport Images

Anna Rakel Pétursdóttir er á heimleið en fer þó ekki alla leið heim til Akureyrar því hún er á leiðinni til Vals.

Frétta- og mannlífsvefurinn Akureyri.net hefur heimildir fyrir því að Anna Rakel sé búinn að ná samkomulagi við Valsliðið. Hún er annar örfætti leikmaðurinn sem semur við Val á stuttum tíma en áður samdi Mary Alice Vignola við Val en var frábær með Þrótti í sumar.

Anna Rakel hefur spilað undanfarin tvö ár í Svíþjóð, fyrst með Linköping en svo með Uppsala IK í ár. Uppsala liðið féll úr deildinni.

Anna Rakel er bara 22 ára gömul en á að samt baki tvö ár í atvinnumennsku og fimm tímabil í efstu deild á Íslandi.

https://www.akureyri.net/is/moya/news/anna-rakel-aelkj-aelkj-laekj-aelkj

Posted by Akureyri.net on Mánudagur, 16. nóvember 2020

Anna Rakel spilar á vinstri vængnum, bæði sem bakvörður og sem vængmaður. Hún hefur verið í kringum A-landsliðið og á að baki sjö A-landsleiki.

Þegar hún lék síðast með Þór/KA sumarið 2018 þá var hún með tvö mörk og sjö stoðsendingar í 18 leikjum. Þegar Þór/KA varð Íslandsmeistari sumarið 2017 þá var Anna Rakel með 1 mörk og 7 stoðsendingar í 18 leikjum. Hún var síðan stoðsendingadrottning deildarinnar sumarið 2016 með 7 stoðsendingar.

Hjá Val hitti Anna Rakel fyrir Lillý Rut Hlynsdóttur en þær spiluðu lengi saman hjá Þór/KA og yfirgáfu báðar Akureyrarliðið eftir 2018 tímabilið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×