Erlent

Brosti til stuðnings­manna er hann yfir­gaf golf­völlinn

Sylvía Hall skrifar
Donald Trump yfirgefur golfvöllinn síðdegis í dag, en hann var einmitt í miðjum golfleik þegar stærstu fjölmiðlarnir vestanhafs lýstu yfir sigri Joe Biden.
Donald Trump yfirgefur golfvöllinn síðdegis í dag, en hann var einmitt í miðjum golfleik þegar stærstu fjölmiðlarnir vestanhafs lýstu yfir sigri Joe Biden. AP/Steve Helber

Donald Trump var í golfi í Virginíu þegar ljóst þótti að engar líkur væru á því að hann færi með sigur úr býtum í Pennsylvaníu. Tuttugu kjörmenn ríkisins voru að öllum líkindum á leið til Joe Biden, forsetaefni Demókrataflokksins, og tryggðu honum þar með kjörmennina 270 sem hann þurfti til þess að tryggja sér sigurinn. 

Biden hefur nú tryggt sér 279 kjörmenn.

Nokkrir stuðningsmenn Trump voru við golfvöllinn þar sem mátti sjá nokkur skilti með áletruninni Stop the steal, eða Stöðvið stuldinn, sem vísar til ummæla Trump um að Demókratar hafi stolið kosningunum með ólöglegum atkvæðum. Sjálfur hefur Trump lýst því yfir að hann ætli ekki að viðurkenna ósigur. 

Trump hefur boðað frekari lögsóknir frá og með næstkomandi mánudegi. Trump hefur ítrekað staðhæft að maðkur sé í mysunni hvað varðar kosningarnar Biden í hag, án þess að hafa reitt fram sannanir eða gögn um að slík hafi verið raunin.

„Hvað er Biden að fela? Ég mun ekki hvílast fyrr en bandaríska þjóðin fær þá heiðarlegu talningu atkvæða sem þau eiga skilið og sem lýðræðið krefst,“ skrifaði forsetinn í yfirlýsingu.

Trump veifaði til stuðningsmanna sinna þegar hann yfirgaf völlinn í dag. Margir stuðningsmenn hans hafa lýst yfir reiði sinni og segjast efast um lögmæti kosninganna. Fregnir hafa borist af því að þeir séu farnir að hópast saman í Arizona, þar sem enn á eftir að tilkynna endanleg úrslit.


Tengdar fréttirAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.