Erlent

Trump viðurkennir ekki ósigur

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Trump er að öllum líkindum á útleið, hvort sem honum líkar það betur eða verr.
Trump er að öllum líkindum á útleið, hvort sem honum líkar það betur eða verr. AP Photo/Evan Vucci

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hyggst ekki viðurkenna ósigur í forsetakosningum ytra þrátt fyrir að fjöldi fjölmiðla hafi lýst Biden sem sigurvegara eftir að sá síðarnefndi rauf 270 kjörmanna múrinn síðdegis í dag.

Í yfirlýsingu frá Trump er því haldið fram að Biden hafi ranglega lýst yfir sigri í kosningunum með hjálp fjölmiðla sem Trump segir hafa engan áhuga á því að leiða það sanna í ljós.

„Hin einfalda staðreynd sem eftir stendur er að þessum kosningum er ekki lokið," segir í yfirlýsingunni. Þar segir Trump að ekki sé búið að staðfesta sigur Bidens í neinu ríki, og því síður þeim ríkjum þar sem afar mjótt er á munum í atkvæðum talið. Bendir Trump á að framboð hans standi nú fyrir fjölmörgum lögsóknum vegna kosninganna.

Lögleg atkvæði ákveða hver er forsetinn, ekki fjölmiðlar, kemur fram í yfirlýsingunni.

Donald Trump skrapp í golf í dag.AP

Boðar hann frekari lögsóknir af hálfu framboðs hans frá og með næstkomandi mánudegi. Trump hefur ítrekað staðhæft að maðkur sé í mysunni hvað varðar kosningarnar Biden í hag, án þess að hafa reitt fram sannanir eða gögn um að slík hafi verið raunin.

Sjálfur var Trump í golfi í Virginíu þegar fréttir brutust út að fjölmiðlar hefðu lýst Biden sigurvegara þar sem útilokað er talið fyrir Trump að sigra í Pennsylvaníu. Það þýðir að Joe Biden er nú með 273 kjörmenn en 270 kjörmenn þarf til að sigra í kosningunum.

Hefð er fyrir því að sá sem talinn er hafa tapað kosningunum viðurkenni ósigur þegar helstu fjölmiðlar telja ómögulegt að sá hinn sami geti sigið fram úr andstæðingi sínum. Ekkert þó sem skyldar Trump til þess að viðurkenna ósigur auk þess sem að engin lagaleg þörf er á því að forsetinn viðurkenni ósigur.


Tengdar fréttir

Pennsylvanía færir Biden sigurinn

Demókratinn Joe Biden hefur nú tryggt sér þá 270 kjörmenn sem þarf til að sigra í forsetakosningunum í Bandaríkjunum eftir hann sigldi fram úr Donald Trump í talningu í Pennsylvaníu. CNN lýsti Biden sigurvegara í ríkinu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×