Enski boltinn

James: Treystu á mig þegar enginn annar gerði það

Arnar Geir Halldórsson skrifar
James Rodriguez og Carlo Ancelotti.
James Rodriguez og Carlo Ancelotti. vísir/Getty

Kólumbíski miðjumaðurinn James Rodriguez segir að hann verði Everton ævinlega þakklátur fyrir að hafa gefið sér tækifæri í sumar.

James sló í gegn á heimsmeistaramótinu 2014 en síðastliðið sumar fékk hann ekki framlengingu á samningi sínum við spænska stórveldið Real Madrid en hann var meðal annars lánaður til Bayern Munchen í tvö tímabil af tíma sínum hjá Real.

„Everton og Ancelotti treystu á mig þegar enginn annar gerði það. Ég verð þessu félagi og Carlo ævinlega þakklátur fyrir það. Þess vegna vil ég gera allt sem ég get í hverjum einasta leik,“ segir James.

Hann hefur verið einn besti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar í upphafi móts og gert Everton kleift að berjast í toppbaráttunni. Þessi 29 ára gamli Kólumbíumaður telur Everton geta keppt við bestu lið deildarinnar undir stjórn hins reynslumikla Carlo Ancelotti.

„Hann er mjög rólegur. Hann veit hvernig á að koma fram við leikmenn og hann nær því besta út úr okkur. Það er ástæðan fyrir því að hann hefur unnið fyrir öll þessu frábæru félög,“ segir James um stjóra sinn og er sannfærður um að liðið geti náð inn í Meistaradeildina á næstu leiktíð.

„Ég held að við höfum það sem þarf til að komast þangað. Carlo Ancelotti er kóngur í Evrópuboltanum.“

James verður í eldlínunni í fyrsta leik dagsins í ensku úrvalsdeildinni þar sem Everton fær Manchester United í heimsókn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×