Enski boltinn

Solskjær hefur ekki áhyggjur af sinni stöðu: Erum að byggja upp

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Ole Gunnar Solskjær.
Ole Gunnar Solskjær. vísir/Getty

Ole Gunnar Solskjær, stjóri Manchester United, kveðst hafa fullan stuðning innan stjórnar félagsins þrátt fyrir slæma byrjun liðsins í ensku úrvalsdeildinni.

Man Utd situr í 15.sæti ensku úrvalsdeildarinnar og hefur aðeins unnið tvo af fyrstu sex leikjum sínum í deildinni. Ekki voru úrslit liðsins í Meistaradeild Evrópu í vikunni til þess fallin að gleðja stuðningsmenn félagsins en Man Utd tapaði fyrir Istanbul Basaksehir.

„Öll mín samtöl við félagið hafa snúið að því að skipuleggja okkur til langtíma. Að sjálfsögðu viljum við líka ná úrslitum í hverjum leik en ég hef bara átt gott samtal við stjórnina um okkar framtíðaráform,“ segir Ole Gunnar.

„Við erum í uppbyggingu. Ég hef fundið fyrir stuðningi alla daga síðan ég tók við og félagið verður að horfa á heildarmyndina. Það er ekki hægt að kasta öllu á glæ til að bregðast við einum eða tveimur úrslitum. Það þarf að horfa á hlutina í stærra samhengi og horfa til þess á hvaða vegferð við erum.“

„Hugarfarið í hópnum hefur tekið miklum framförum. Strákarnir hafa gott hugarfar og vilja gera allt sem þeir geta til að bæta sig,“

„Í hvert skipti sem leikur tapar vakna gagnrýnisraddir úr öllum áttum en ég get ekki kvartað yfir hugarfari leikmanna,“ segir Ole.

Manchester United heimsækir Everton í fyrsta leik dagsins í ensku úrvalsdeildinni og hafa enskir fjölmiðlar sett leikinn upp sem úrslitaleik Norðmannsins fyrir framtíð sinni í stjórastól félagsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×