Enski boltinn

Á toppnum í fyrsta sinn í 32 ár: STOP THE COUNT

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Toppliðið
Toppliðið vísir/Getty

Southampton trónir á toppi ensku úrvalsdeildarinnar og eru það heldur ókunnugar slóðir fyrir félagið sem hefur aldrei hampað enska meistaratitlinum.

Raunar hefur Southampton ekki komist í efsta sæti efstu deildar á Englandi síðan árið 1988 en 2-0 sigur á Newcastle í gær færði liðinu efsta sætið, um stundarsakir hið minnsta en ætla má að Dýrlingarnir muni ekki sitja á toppnum þegar allir leikir 8.umferðar hafa farið fram þar sem næstu fjögur lið fyrir neðan þurfa bara sigur úr sínum leik í dag eða á morgun til að komast upp fyrir Southampton.

Er á meðan er og stuðningsmenn Southampton vilja eflaust njóta hverrar mínútu sem þeir tróna á toppnum. Einn af þeim og sá sem sér um opinberan Twitter reikning félagsins fór mikinn í samfélagsmiðlinum í gærkvöldi eins og sjá má hér fyrir neðan.

Er óskað eftir því að talning stiga verði stöðvuð þegar í stað líkt og Donald Trump, líklega fráfarandi Bandaríkjaforseti, hefur óskað eftir varðandi talningu atkvæða í yfirstandandi forsetakosningum vestanhafs.

Einnig hafa neðri deildir Englands verið stöðvaðar um sinn vegna kórónuveirufaraldursins og eflaust margir stuðningsmenn Southampton sem myndu sætta sig við að keppni í úrvalsdeildinni yrði stöðvuð þegar í stað.

Þegar farið er inn á Twitter reikning Southampton má einnig sjá að upplýsingar um félagið hafa verið uppfærðar og þar stendur einfaldlega: Heimili toppliðsins í ensku úrvalsdeildinni

Stuðningsmenn Southampton vonast væntanlega eftir að Everton misstígi sig gegn Manchester United í hádeginu en Everton getur tyllt sér á toppinn með sigri í leiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×