Erlent

Metdagur í Frakklandi

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Olivier Verán, heilbrigðisráðherra Frakklands, segir stöðuna grafalvarlega.
Olivier Verán, heilbrigðisráðherra Frakklands, segir stöðuna grafalvarlega. Aurelien Meunier/Getty

Alls greindust 60.486 manns með kórónuveiruna í Frakklandi í gær. Aldrei hafa jafn margir greinst með veiruna á einum sólarhring. Frá þessu er greint á vef breska ríkisútvarpsins og vísað í tölur frá Johns Hopkins-háskóla.

Alls hefur nú meira en 1,7 milljónir manna greinst með veiruna í Frakklandi og hátt í 40.000 látið lífið af völdum hennar. Þar af létust 828 í gær.

Vika er síðan gripið var til hertra aðgerða í Frakklandi til að freista þess að hefta frekari útbreiðslu veirunnar. Gert er ráð fyrir að aðgerðirnar verði í gildi út nóvembermánuð. Meðal þess sem felst í aðgerðunum er útgöngubann með ákveðnum undantekningum.

Ekki er leyfilegt að yfirgefa heimili sitt nema til þess að fara til vinnu, sé ekki unnt að vinna heima, til þess að kaupa nauðsynjavörur eða sækja sér heilbrigðisþjónustu. Þá er heimilt að stunda líkamsrækt utandyra í allt að eina klukkustund á dag.

Öllum verslunum og þjónustustöðum sem ekki veita nauðsynlega þjónustu hefur verið lokað. Skólar, leikskólar og dagheimili barna eru þó áfram opin. Þá er í gildi útgöngubann frá klukkan tíu að kvöldi til sex að morgni og nær það yfir allt landið.

Olibier Véran, heilbrigðisráðherra Frakklands, hefur biðlað til fólks um að fylgja reglunum. Án þeirra segir hann að gjörgæsludeildir sjúkrahúsa í landinu myndu sligast undan álagi um miðjan nóvember.

„Því strangari sem við erum, því styttra varir útgöngubannið,“ sagði Véran á blaðamannafundi.

„Málið er grafalvarlegt. Önnur bylgjan er hafin og hún er ofbeldisfull.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×