Enski boltinn

Ráðast örlög Solskjærs eftir leik gegn Everton eins og hjá Moyes?

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
David Moyes á hliðarlínunni í sínum síðasta leik sem knattspyrnustjóri Manchester United, gegn Everton 20. apríl 2014.
David Moyes á hliðarlínunni í sínum síðasta leik sem knattspyrnustjóri Manchester United, gegn Everton 20. apríl 2014. getty/Clive Brunskill

Eftir slaka byrjun á tímabilinu er mikil pressa á Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjóra Manchester United.

Samkvæmt þykir veðbönkum er Solskjær sá stjóri í ensku úrvalsdeildinni sem þykir líklegastur til að verða rekinn. Mauricio Pochettino, fyrrverandi stjóri Tottenham, hefur verið sterklega orðaður við United og félagið ku vera búið að setja sig í samband við Argentínumanninn.

United sækir Everton heim í hádeginu á morgun en talað er um að Solskjær verði jafnvel látinn taka pokann sinn ef leikurinn fer illa.

Sex ár eru síðan David Moyes var rekinn sem stjóri United eftir tap fyrir Everton, hans gamla liði.

Þann 20. apríl 2014 vann Everton United á Goodison Park, 2-0. Tveimur dögum síðar var Moyes látinn fara frá United eftir aðeins tíu mánuði í starfi. Ryan Giggs stýrði United út tímabilið og um sumarið tók Louis van Gaal svo við.

Hollendingurinn entist í tvö tímabil hjá United áður en hann var látinn fara og José Mourinho ráðinn. Portúgalinn var tvö og hálft tímabil hjá United en var rekinn í desember 2019 og við tók Solskjær.

United er í 15. sæti ensku úrvalsdeildarinnar og hefur ekki enn unnið leik á heimavelli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×