Erlent

Heitir því að kæra úrslit í Biden-ríkjum

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna. AP/Evan Vucci

Donald Trump Bandaríkjaforseti heitir því að höfða dómsmál vegna úrslita forsetakosninganna á grundvelli meintra kosningasvika. Mál verði höfðuð í öllum ríkjum sem Biden hefur nýlega verið lýstur sigurvegari í.

Frá þessu greindi Trump á Twitter-reikningi sínum í dag. Þrátt fyrir ásakanir hans um meint kosningasvik í ríkjunum setti forsetinn ekki fram neinar sannanir þess efnis heldur vísaði í „fjölmiðla“. Ekkert virðist benda til þess að kosningasvik hafi verið viðhöfð í umræddum ríkjum.

„Stöðvum svikin!“ bætti Trump svo við í öðru tísti, einu af fjölmörgum í dag. Bæði tíst forsetans hafa verið merkt sem umdeild eða misvísandi af Twitter.

Framboð Trumps hefur höfðað mál vegna framkvæmdar kosninganna og talningarinnar í fimm ríkjum; Nevada, Pennsylvaníu, Michigan, Wisconsin og Georgíu. Síðast var tilkynnt um málshöfðun í Nevada á óvenjulegum blaðamannafundi framboðsins, sem heldur því fram að þúsundir manna hafi greitt atkvæði sem ekki búa lengur í ríkinu.

Jacob Soboroff, fréttamaður MSNBC, krafði Richard Grenell, forsvarsmann Trump-framboðsins á blaðamannafundinum í Nevada og fyrrverandi sendiherra, um sannanir fyrir meintum kosningasvikum í ríkinu eftir blaðamannafundinn.

Grenell vék sér undan ítrekuðum spurningum Soboroffs, svaraði raunar engu, og gekk rakleiðis inn í smárútu með skyggðum gluggum, líkt og sjá má í myndbandinu hér fyrir neðan.

Enn er beðið eftir niðurstöðum kosninganna í Nevada og Georgíu en helstu miðlar hafa þegar lýst Biden sigurvegara í Michigan og Wisconsin. Sérfræðingar eru flestir á því að Biden merji sigur í Nevada og þá hefur forskot Trumps í Georgíu minnkað eftir því sem líður á daginn.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×