Erlent

Al­menningur beðinn um að halda sig fjarri eftir skotárás í Vínarborg

Sylvía Hall og Samúel Karl Ólason skrifa
Íbúar hafa birt myndbönd á samfélagsmiðlum þar sem skothvellirnir heyrast greinilega.
Íbúar hafa birt myndbönd á samfélagsmiðlum þar sem skothvellirnir heyrast greinilega. Twitter

Umfangsmiklar lögregluaðgerðir hafa staðið yfir í Vín, höfuðborg Austurríkis, eftir skotárás þar í borg. Í frétt austurríska dagblaðsins Kleine Zeitung segir að nokkrir séu látnir og einn lögregluþjónn sé alvarlega særður, en upplýsingar eru enn á reiki. Fjölmiðlar ytra tala um að í það minnsta sjö séu látin.  

Einn árásarmaður hefur verið handtekinn og eru nokkrir sagðir á kreiki. Þá bárust sömuleiðis fregnir af gíslatöku í borginni, en það hefur að mestu verið dregið til baka. 

Uppfært klukkan 21:30: 

Lögreglan í Vín staðfestir að aðgerðir séu yfirstandandi á sex stöðum í borginni. Einn sé látinn í árásunum, þónokkrir særðir alvarlega og þar af einn lögreglumaður. 

Þá hafi lögregla skotið einn árásarmann til bana en margir séu að verki, vopnaðir rifflum.

Uppfært klukkan 22:25:

Lögreglan í Vínarborg sendi frá sér tilkynningu nú fyrir skömmu þar sem kemur fram að árásin standi enn yfir. Fólk er beðið um að halda sig heima og þeir sem eru utandyra eru beðnir um að leita skjóls.

Talsmaður lögreglunnar sagði í sjónvarpsviðtali að enn væru þungvopnaðir árásarmenn á kreiki.

Hér að neðan má sjá fyrri fregnir af málinu:

Innanríkisráðherra landsins segir að um hryðjuverkaárás sé að ræða. Hann sagði grun lögreglu vera að árásarmennirnir væru nokkrir.

Lögreglumenn eru sagðir hafa elt árásarmennina víða um borgina. Almenningssamgöngum hefur verið lokað.

Almenningur hefur birt myndbönd þar sem miklir skothvellir heyrast. Lögregla hefur þó biðlað til fólks að birta ekki myndbönd og myndir af aðgerðunum sem standa yfir. 

„Það er stór lögregluaðgerð í gangi á fyrsta svæði í Vín (nærri miðborg). Lögreglumenn eru á vettvangi og fylgjast með stöðunni. Við munum upplýsa ykkur um stöðu mála,“ segir í fyrstu færslu um aðgerðirnar.

Í nýjustu færslu er fólk beðið um að halda sig fjarri almenningsstöðum og almenningssamgöngum. Þá ítrekar lögregla að fólk birti ekki myndefni frá aðgerðum lögreglu.

Ekki liggur fyrir hvort árásin hafi beinst að bænahúsinu sjálfu eða bar nærri. Vitni segjast hafa heyrt skothríð standa yfir í nokkurn tíma. 

Hér að neðan má sjá myndband af vettvangi þar sem skothvellirnir heyrast greinilega. 

Uppfært 20:22:

Formaður félags gyðinga í Vín segir bænahúsið hafa verið lokað á þeim tíma sem árásin hófst. Því hafi ólíklega verið um árás á bænahúsið sjálft að ræða. 

Þá hefur fjöldi viðbragðsaðila verið kallaður á vettvang. Þá er fullyrt að einn árásarmaður hafi fallið í aðgerðum lögreglu en hinna sé enn leitað. 

Uppfært 20:38: 

Austurrískir fjölmiðlar segja að sjö séu látin í árásinni. Þá er einnig fullyrt að einn hafi verið handtekinn. 

Fréttin hefur verið uppfærð.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×